Sport

Sjáðu Guðbjörgu Jónu hlaupa hraðast íslenskra kvenna í sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er mætt aftur á brautina eftir meiðsli og hefur átt sögulega endurkomu.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir er mætt aftur á brautina eftir meiðsli og hefur átt sögulega endurkomu. Getty/Buda Mendes

Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sló í gærkvöldi Íslandsmetið í 60 metra hlaupi innanhúss aðeins fjórum dögum eftir að hún jafnaði metið.

Guðbjörg náði þessum frábæra árangri á Sprint'n'Jump mótinu í Árósum í Danmörku.

Guðbjörg Jóna setti myndband af hlaupinu inn á samfélagsmiðla sína í gær og þar má sjá hana hlaupa hraðast íslenskra kvenna í sögunni. Myndbandið er hér fyrir neðan.

Guðbjörg hafði jafnað sitt Íslandsmet á Stórmóti ÍR um síðustu helgi þegar hún hljóp á 7,43 sekúndum.

Nú bætti Guðbjörg hins vegar metið um átta sekúndubrot með því að koma í mark á 7,35 sekúndum.

Hún vann líka hlaupið en önnur var hin breska Georgina Diana Naomi Adam á 7,37 sekúndum Pólsk stelpa, Paulina Paluch, var síðan þriðja á 7,42 sekúndum sjónarmun á undan dönsku stelpunni Mathilde Uldall Kramer.

Guðbjörg Jóna á nú fjögur hröðustu 60 metra hlaup íslenskra kvenna frá upphafi og enn fremur á hún tíu af fjórtán bestu tímum sögunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×