Í byrjun árs höfðu erlend tískublöð á borð við Glamour spáð því að stutt hár ætti eftir að vera eitt það heitasta í hártískunni árið 2023.
„Ég held að þörfin fyrir nýtt upphaf og að ýta aðeins á refresh takkann eftir þessi krefjandi ár sem við eigum að baki eigi eftir að ýta undir þá löngun að klippa á okkur hárið. Stuttar klippingar og bob klippingar eiga eftir að vera eftirsóttustu klippingarnar,“ segir Dionne Smith, hárgreiðslukona fræga fólksins, í samtali við Glamour.

Stutt bob klipping í einni sídd það heitasta
Hárgreiðslumaðurinn Paul Percival, sem hefur klippt stjörnur á borð við Victoriu Beckham, tekur undir þetta. Hann segir jafnframt að bob klippingarnar eigi eftir að verða ennþá styttri en við höfum séð síðustu ár.
Í síðustu viku tók Vísir saman lista yfir heitustu trend ársins 2023. Þar nefndi hárgreiðslukonan Íris Lóa einmitt stuttar klippingar á borð við pixie og bob klippingar.
Þegar fólk hugsar um bob klippingu þá ímyndar það sér hugsanlega stutta klippingu þar sem hárið er styttra að aftan og síðara að framan, svolítið í anda Victoriu Beckham. Stjörnuhárgreiðslumaðurinn Tommy Buckett segir hins vegar að nú sé það heitasta að vera með bob klippingu þar sem hárið er allt í einni sídd.
„Nú mun bókstaflega hver einasta stelpa klippa hárið sitt“
Hailey Bieber, ein helsta tískufyrirmyndin í dag, er að sjálfsögðu með puttann á púlsinum og frumsýndi einmitt slíka klippingu á TikTok síðu sinni í vikunni. „Úps,“ skrifaði Bieber undir myndbandið sem hefur þegar fengið um 6 milljónir áhorf.
„Núna mun bókstaflega hver einasta stelpa klippa hárið sitt,“ skrifar einn aðdáandi undir myndbandið. Fleiri aðdáendur taka undir þetta og segist einn aðdáandi spá því að eftir viku verði allar stelpur á TikTok komnar með stutt hár.