Innlent

Hrasaði á hlaupahjóli og hrækti á lögreglu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Norðurlands eystra
Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Norðurlands eystra Vísir/Vilhelm

Karlmaður búsettur á Akureyri þarf að dúsa í níutíu daga fangelsi eftir að hann hrækti á og kleip lögreglumenn í júní 2021. Lögreglumennirnir höfðu afskipti af honum eftir að hann hafði hrasað ölvaður á rafhlaupahjóli.

Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Norðurlands eystra. Í dóminum yfir manninum má lesa að lögregla og sjúkralið hafi verið kallað til eftir að umræddur maður féll af rafhlaupahjóli og slasaðist.

Maðurinn afþakkaði afstoð og vildi halda heim á leið. Lögreglu grunaði hins vegar að hann hafi verið að aka rafhlaupahjólinu undir áhrifum áfengis. Óskuðu þeir eftir öndunarsýni, sem maðurinn neitaði.

Var honum þá tilkynnt að hann yrði handtekinn gæfi hann ekki öndunarsýni. Kemur fram í lögregluskýrslu að við það hafi hann orðið mjög æstur. Kallaði hann annan lögreglumanninn helvítis druslu og hrækti á viðkomandi. Er maðurinn var handjárnaður beit hann í upphandlegg hins lögreglumannsins. 

Upptaka úr búkmyndavél annars lögreglumannsins reyndist lykilgagn í málinu þar sem maðurinn kannaðist hvorki við að hafa hrækt á lögreglumanninn né bitið hinn.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að búkmyndavélin sýni að maðurinn ærist þegar tengdamóðir hans kom á vettvang til að hafa afskipti af lögreglumönnunum. Greinilega sjáist að maðurinn losi vinstri hönd sína, grípi utan um upphandlegg annars lögreglumannsins og kreisti. Þá megi greina hrákahljóð á upptökunni.

Taldi dómurinn að þessi gögn ásamt trúverðugum framburði lögreglumannanna tveggja dugi til sína fram á að maðurinn hafi gert sekur um þá háttsemi sem hann var sakaður um.

Var hann því dæmdur í níutíu daga fangelsi vegna málsins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×