Lífið

Þrjár þrettánda­brennur á höfuð­borgar­svæðinu

Atli Ísleifsson skrifar
Jólin verða kvödd í dag.
Jólin verða kvödd í dag. Getty

Tvær þrettándabrennur verða haldnar í Reykjavík í dag í tilefni af þrettándanum í dag. Brenna verður einnig í Mosfellsbæ og þá verður sérstök Þrettándagleði í Hafnarfirði.

Brennurnar í Reykjavík verða annars vegar við Ægisíðu og hin við frístundamiðstöðina Gufunesbæ í Grafarvogi. Í Mosfellsbæ verður þrettándabrennan neðan Holta­hverf­is við Leiru­vog­inn en Þrettándagleðin Í Hafnarfirði á Ásvöllum.

Á vef Reykjavíkurborgar segir að Austurmiðstöð standi fyrir þrettándabrennu við Gufunesbæ og hefst dagskráin klukkan 17 með kakó- og vöfflustund í Hlöðunni. 

„Skólahljómsveit Grafarvogs leikur létt lög kl. 17.20 og leiðir síðan göngu frá Hlöðunni að brennu kl. 17.55. Kveikt verður í brennunni kl.18 og munu Espólín, Dóra og Döðlurnar og Friðrik Dór skemmta gestum. Þrettándagleði lýkur svo með flugeldasýningu kl.19.

Gestir minntir á að skilja skotelda eftir heima

Á þrettándahátíð Vesturbæjar verður dagskráin eftirfarandi. Safnast verður saman við Melaskóla kl.18, þar sem Sveinn Bjarki leiðir fjöldasöng en því næst verður gengið með kyndla að brennunni á Ægisíðu í fylgd lögreglu. Borinn verður eldur að kestinum um kl. 18.30 og boðið verður upp á flugeldasýningu um kl.18.45 í samstarfi við KR-flugelda. Vöfflubíllinn mætir á svæðið og mun allur ágóði af sölunni renna í Örninn sem er minningar- og styrktarsjóður. Kvæðamannafélagið Iðunn tekur nokkur lög og mögulega kíkja jólasveinar við áður en þeir leggja af stað til fjalla.

Foreldrafélög Vesturbæjar-, Granda-, Haga- og Melaskóla, ásamt Vesturmiðstöð standa að þrettándahátíðinni. Aðstandendur hátíðarinnar biðja, að gefnu tilefni, öll að skilja skotelda eftir heima því mikil hætta getur skapast ef þeim er skotið upp þar sem mörg eru saman komin. Þá er minnt á að óheimilt er að taka við jólatrjám á brennuna,“ segir á vef Reykjavíkurborgar.

Brenna í Mosó og Þrettándagleði í Hafnarfirði

Á vef Mosfellsbæjar kemur fram að Skáta­fé­lag­ið Mosverj­ar leiði blys­för frá Mið­bæj­ar­torg­inu klukkkan 17:30.

„Dag­skrá­in verð­ur veg­leg en fram koma Storm­sveit­in og Skóla­hljóm­sveit Mos­fells­bæj­ar. Álfa­kóng­ur og álfa­drottn­ing, Grýla, Leppal­úða og þeirra hyski verða á svæð­inu.

Björg­un­ar­sveit­in Kynd­ill verð­ur með glæsi­lega flug­elda­sýn­ingu,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir á vef Hafnarfjarðar að jólin verði kvödd með dansi og söng á Þrettándagleði á Ásvöllum í kvöld.

„Hátíðin hefst kl. 18. Guðrún Árný stjórnar söng og dansi af sviði. Kertasníkir, Grýla, álfar og púkar verða á sveimi á svæðinu. Í afgreiðslu verður hægt að kaupa kakó, kleinur og stjörnuljós.

Hátíðinni lýkur um kl. 18:45 með glæsilegri flugeldasýningu Björgunarsveitar Hafnarfjarðar,“ segir á vef Hafnarfirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×