Innlent

Ölvun en lítið um átök í miðbænum

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögregluþjónar að störfum í miðbænum í gærkvöldi.
Lögregluþjónar að störfum í miðbænum í gærkvöldi. Vísir/Vilhelm

Lögregluþjónar á höfuðborgarsvæðinu þurftu að hafa afskipti af þó nokkrum ölvuðum einstaklingum í miðbænum og víðar. Einnig var tilkynnt um líkamsárás í miðbænum þar sem meintur árásarmaður var handtekinn.

Í dagbók lögreglunnar segir að tilkynning hafi borist um samkvæmi á Seltjarnarnesi þar sem mikill fjöldi ungs fólks hafi verið að skemmta sér. Talsvert mikil ölvun hafi verið á staðnum og þar sem fólkið hafi að miklu leyti verið sextán og sautján ára hafi samkvæmið verið leyst upp.

Lögreglunni barst tilkynning um mann sem hafði dottið af rafhlaupahjóli og var talið að hann hefði brotið bein. Sá var fluttur á á bráðamóttöku. Annar maður sem fluttur var á bráðamóttöku hafði fallið á skemmtistað og fann fyrir verk í höfði.

Dyraverðir óskuðu eftir aðstoð vegna einstaklings sem lét ófriðlega. Honum var vísað á brott en afskipti voru höfð af öðrum manni í miðbænum vegna brots á lögreglusamþykkt. Hann mun hafa verið ofurölvi og ekki viðræðuhæfur og var því látinn gista fangageymslur í nótt.

Lögreglan var einnig kölluð til fjölbýlishúss í Hlíðunum eftir að maður hafði komist þar inn á stigagang.

Þá barst lögreglunni tilkynning um ofurölvi mann sem svaf í anddyri fyrirtækis í hverfi 104. Þaðan barst einnig tilkynning um rán en fjórir voru handteknir vegna málsins.

Einnig barst tilkynning um þjófnað úr verslun í Múlunum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var með stóraukinn viðbúnað í miðbænum í gærkvöldi í kjölfar árásar sem framin var á skemmtistaðnum Bankastræti club í síðustu viku og ætlaðra hefndaraðgerða eftir hana.

Skilaboð höfðu gengið manna á milli síðustu daga þar sem varað var við aukinni hættu á átökum í miðbænum um helgina og var fólki jafnvel ráðlagt að fara ekki út á lífið í kvöld.

Fréttin hefur verið uppfærð.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.