Frumvarpið hefur verið í nokkur tíma í smíðum og voru drög að þeim meðal annars í Samráðsgátt um tíma. Í morgun afgreiddi svo ríkisstjórnin frumvarpið. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra á von að frumvarpið fari í framhaldinu til þingflokkanna á morgun.
„Það er nú fyrst og fremst bara verið að opna hér á heimildir lögreglu til að stuðla að auknum afbrotavörnum með eftirliti á þeim þáttum sem geta snúið að skipulagðri brotastarfsemi og nánar um öryggi ríkisins eða gagnvart hryðjuverkaógn. Það er það sem að þetta frumvarp gengur út á og við erum að reyna að færa okkur þar svona nær því sem að gengur og gerist í nágrannalöndum okkar í starfsumhverfi lögreglunnar.“
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir vopnaburði lögreglu og heimildum til forvirkara rannsókna.
„Við köllum það afbrotavarnir og það snýst um það að lögreglan geti hafið rannsókn þegar um er að ræða einstaklinga sem að kannski ekki eru grunaðir um ákveðin brot en eru taldir tengjast skipulagðri brotastarfsemi eða annarri starfsemi sem eru þá ógn gagnvart öryggi ríkisins en slíkar ákvarðanir yrðu alltaf teknar af lögreglustjóra eða yfirmönnum lögreglu. Við munum koma líka á embætti innra eftirlits hjá lögreglunni sem alltaf er tilkynnt þá um slíkar aðgerðir og eins er það þá upplýst til eftirlitsnefndar eins fljótt og verða má.“
Jón vonast til að frumvarpið geti orðið að lögum nokkuð hratt.
„Ég er að vonast til að þingflokkar afgreiði þetta mál á morgun og ég fái þá að mæla fyrir því helst í næstu viku og þá er það auðvitað þingnefndarinnar að fjalla um þetta. Ég veit það er mikið álag á allsherjarnefnd þingsins þannig það verður að koma í ljós hvernig það gengur. Ég held að það sé alveg raunhæft að gera sér væntingar um það þetta verði klárað þá mjög fljótlega eftir áramótin ef að það næst ekki fyrir jól.“