Innlent

Hilmar Örn Kolbeins er látinn

Bjarki Sigurðsson skrifar
Hilmar Örn Kolbeins lést á gjörgæsludeild Landspítalans mánudaginn 5. september.
Hilmar Örn Kolbeins lést á gjörgæsludeild Landspítalans mánudaginn 5. september. Vísir/Egill

Baráttumaðurinn Hilmar Örn Kolbeins er látinn. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut mánudaginn 5. september.

Greint er frá andláti Hilmars í Morgunblaðinu.

Hilmar var fjölfatlaður en dvaldi um tíma á hjúkrunarheimili aldraðra því Reykjavíkurborg neitaði honum um heimaþjónustu. Hann hafði búið í leiguíbúð á vegum borgarinnar og fékk þar heimaþjónustu en eftir að meðferð hans þar lauk var honum neitað um áframhaldandi hjúkrun.

„Við fáum ekki skýr svör. Jú hjúkrunarþörfin mín er meiri en áður það þarf jú að skipta á þessu sári einu sinni á dag. Borgin virðist setja það fyrir sig, þetta er eitthvað sem borgin er þver með og vill ekki veita,“ sagði Hilmar í samtali við Stöð 2 undir lok síðasta árs.

Í kjölfar viðtalsins var honum tilkynnt að hann fengi að fara aftur heim og að hann fengi þá þjónustu sem hann þarf, svo lengi sem það tækist að ráða starfsfólk á tilsettum tíma.

Það tókst ekki og þegar hann missti pláss á hjúkrunarheimilinu var honum vísað á spítala.

„Þetta er bara mjög skrítinn tilfinning, ég er ekki veikur, ég er á spítala og þetta er bara mjög skrítin og óþægileg tilfinning. Mér þykir bara mjög leitt að borgin skuli ekki veita einhverja neyðarþjónustu meðan ég er að negla saman einhverju starfsfólki til að sinna mér. Það er ótrúlegt að maður sé settur á spítala þar sem er neyðarástand í stað þess að það sé fundið eitthvað annað úrræði,“ sagði Hilmar.


Tengdar fréttir

Fastur á elliheimili og fær ekki að flytja heim

Fjölfatlaður 45 ára karlmaður er fastur á elliheimili því borgin neitar honum um heimaþjónustu sem hann fékk áður. Hann missir plássið eftir nokkrar vikur og veit ekki hvar hann endar. Baráttan hefur tekið sinn toll og telur hann sig hafa elst um tuttugu ár.

Fær að fara aftur heim

Fjölfatlaður maður sem hefur verið fastur á Hrafnistu mánuðum saman vegna skorts á heimaþjónustu var tilkynnt rétt fyrir jól að borgin hafi loks samþykkti að veita honum hana. Maðurinn segist ekki hafa getað fengið betri jólagjöf.

„Vinnubrögð borgarinnar vonandi einsdæmi“

Lögmaður fjölfatlaðs manns sem hefur síðan í vor verið neitað um heimaþjónustu vonar að vinnubrögð Reykjavíkurborgar í málinu séu einsdæmi. Maðurinn missti pláss á hjúkrunarheimili aldraðra í gær og var vísað á spítala. Hann segir skrítið að liggja án veikinda á stofnun sem sé á neyðarstigi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×