Innlent

Nýjar höfuðstöðvar Icelandair rísa á Flugvöllum í Hafnarfirði

Kristján Már Unnarsson skrifar
Hópur starfsmanna úr ýmsum deildum Icelandair tók fyrstu skóflustungurnar.
Hópur starfsmanna úr ýmsum deildum Icelandair tók fyrstu skóflustungurnar. Egill Aðalsteinsson

Fyrsta skóflustunga að nýjum höfuðstöðvum Icelandair í Hafnarfirði var tekin síðdegis. Forstjórinn vonast til að skoðað verði hvort gömlu skrifstofurnar á Reykjavíkurflugvelli geti hentað sem flugstöð.

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá farþegaþotu Icelandair fljúga lágt yfir Vallahverfi í Hafnarfirði í sömu mund og forstjóri félagsins bauð gesti velkomna. Hann sagði svo fyrstu rafmagnsflugvél Íslendinga, sem birtist skömmu síðar, vera framtíðina.

Nýjar höfuðstöðvar Icelandair rísa við þjálfunarsetur félagsins við götuna Flugvelli á Völlunum í Hafnarfirði. Fyrir miðri mynd má sjá hóp fólks saman kominn til að fagna fyrstu skóflustungunni.Egill Aðalsteinsson

„En aftur að framtíðinni og húsnæðismálunum. Hér ætlum við að byggja eftirsóttasta og besta vinnustað landsins. Það er okkar markmið,“ sagði Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

Bogi afhenti svo umsjónarmanni fasteigna félagsins, Jóhanni Úlfarssyni, skóflu sem starfsmenn í viðhaldsskýli Icelandair smíðuðu úr hlutum úr 757 þotu en skófluspaðinn, úr títan-málmi, er úr hreyfilblaði vélarinnar. Tók Jóhann fyrstu skóflustunguna ásamt hópi starfsmanna úr hinum ýmsu deildum.

Nýju höfuðstöðvarnar rísa við þjálfunarsetur félagsins við götuna Flugvelli og verða í fimm þúsund fermetra viðbyggingu, sem áætlað er að verði tilbúin í árslok 2024.

Útlitsmynd af nýjum höfuðstöðvum Icelandair.Icelandair

Um leið flytur þetta langstærsta samgöngufyrirtæki landsins úr Reykjavík og úr gömlu Loftleiðabyggingunni, sem upphaflega átti að verða flugstöð. En gæti forstjóri Icelandair séð fyrir sér að gömlu höfuðstöðvarnar verði flugstöð?

„Ég veit það nú ekki. En ég held að það liggi alveg fyrir, og allir eru sammála því, að það þarf að endurbæta flugstöðina á Reykjavíkurflugvelli, hvernig sem það verður gert. Hún er alls ekki boðleg, hvorki fyrir starfsfólk né farþega, eins og hún er í dag.“

Loftleiðabyggingunni á Reykjavíkurflugvelli var upphaflega ætlað að vera flugstöð.Vísir

-En væri þetta ekki úrvalshús að leggja undir flugstöð?

„Hugsanlega er þetta bara fínt hús og gæti hentað vel og það verða fasteignaeigendur og aðrir að skoða núna í framhaldinu. Vonandi horfa þeir á þann möguleika,“ svarar Bogi Nils.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:

Fjallað var um smíði Loftleiðabyggingarinnar í þessari frétt Stöðvar 2 fyrir fimm árum:


Tengdar fréttir

Flytja höfuð­stöðvarnar frá Naut­hóls­vegi á Flug­velli

Icelandair Group skrifaði í dag undir samning við fasteignafélagið Reiti um sölu á skrifstofuhúsnæði félagsins við Nauthólsveg 50. Söluverðið er tæplega 2,3 milljarðar króna, sem verður nýtt að hluta til uppgreiðslu láns sem er áhvílandi á fasteigninni og styrkja lausafjárstöðu félagsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×