Innlent

Afar ólík við­brögð við fyrir­spurn um að­farar­gerðir á heil­brigðis­stofnunum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Ólíkt brugðust þeir við, ráðherrarnir og flokksbræðurnir Willum Þór og Ásmundur Einar.
Ólíkt brugðust þeir við, ráðherrarnir og flokksbræðurnir Willum Þór og Ásmundur Einar. Mynd/Alþingi

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, virðist ekki vilja svara því beint hvort hann telji forsvaranlegt að aðfarargerðir til að koma á umgengni, lögheimili og/eða forsjá séu framkvæmdar á heilbrigðisstofnunum.

Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, lagði umrædda fyrirspurn fyrir ráðherra en í svari Ásmundar segir hann umrædda framkvæmd á borði dómsmálaráðuneytisins og að hann hyggist ekki beita sér í einstaklingsmálum vegna úrskurða sem kveðnir eru upp á dómstólum og framkvæmdir af sýslumanni.

Fyrirspurn þingmannsins er almenns eðlis en tilefnið vafalítið aðfarargerð sem framkvæmd var á Barnaspítala Hringsins í sumar, gagnvart barni sem var þar í lyfjagjöf.

Athygli vekur að sama fyrirspurn vakti allt önnur viðbrögð hjá heilbrigisráðherra, Willum Þór Þórssyni, sem sagðist fyrir sitt leyti telja að stjórnvöld og aðrir ættu að forðast að gera nokkuð það sem truflað gæti veitingu nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu. 

Það ætti, að mati ráðherra, einnig við um aðfarargerðir sem framkvæmdar væru til að koma á umgengni, lögheimili og/eða forsjá og þá sérstaklega ef unnt væri að koma þeim við annars staðar.

„Það er hlutverk heilbrigðisstofnana að tryggja að sjúklingar, þ.m.t. börn, fái viðeigandi heilbrigðisþjónustu og gæta að réttindum sjúklinga meðan á því stendur. Liður í því að geta veitt sem besta heilbrigðisþjónustu er að sjúklingum líði öruggum á heilbrigðisstofnunum og veigri sér ekki við að mæta þangað, svo sem vegna hættu á að þar verði framkvæmdar aðfarargerðir þær sem um er spurt,“ sagði heilbrigðisráðherra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×