Tónlist

Sömdu lag út frá upplifun á sóttkví

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Hljómsveitin Piparkorn var að senda frá sér tónlistarmyndband við lagið Heima við.
Hljómsveitin Piparkorn var að senda frá sér tónlistarmyndband við lagið Heima við. Aðsend

Piparkorn er jazz-skotin funk hljómsveit sem hefur starfað í ýmsum myndum frá árinu 2015. Hljómsveitin hóf ferilinn í djasstónlist en hefur þróað stílinn sinn hægt og rólega út í poppaðra og ferskara efni en Piparkorn var að senda frá sér lagið Heima við ásamt splunkunýju tónlistarmyndbandi.

Hljómsveitin er skipuð þeim Emmu Eyþórsdóttur, söngkonu, Gunnari Hinriki Hafsteinssyni, gítarleikara, Hjálmari Karl Guðnasyni, bassaleikara, Magnúsi Þór Sveinssyni, hljómborðsleikara, Ragnari Má Jónssyni, saxófónleikara, Sigurrós Jóhannesdóttur, trompetleikara og bakraddasöngkonu og Þorsteini Jónssyni sem spilar á trommur.

Hér má sjá tónlistarmyndbandið:

Blaðamaður tók púlsinn á hljómsveitarmeðlimum.

Hvaðan sækið þið innblástur í tónlistinni?

Þó hljómsveitin vinni mikið saman að lögunum og innblásturinn komi því úr öllum áttum er það yfirleitt píanóleikarinn í hljómsveitinni, Magnús Þór, sem leggur grunninn að nýjum lögum og sér um meginþorra lagasmíðanna.

Magnús Þór: Þar sem ég hef alltaf verið mikill fönk/fusion áhugamaður þá sæki ég gífurlegan í innblástur frá mínum fönk átrúnaðargoðum eins og Stevie Wonder, Vulfpeck og Mezzoforte. Til gamans má geta þá er Eyþór Gunnars úr Mezzoforte píanó kennarinn minn þannig að þetta smitast kannski yfir á mig. 

Iðulega byrjar lag á ótrúlega einfaldari hugmynd og eftir það fer ég í gífurlega mikið vinnuflæði og hætti ekki fyrr en að grófleg útsetningu er tilbúin. 

Svo fer ég með það á æfingu og leyfi bandinu að móta það meira.

Þegar lagið er komið í hendur hljómsveitarinnar er það trompetleikarinn Sigurrós sem iðulega sér um textasmíðar, en sinn innblástur sækir hún fyrst og fremst í eigið líf og upplifanir, sem og sitt nærumhverfi. Upphafleg drög að þessu laginu lagði Magnús þegar hann var í sóttkví og gaf hann laginu vinnuheitið „Groovy Sóttkví Vibes“. Þetta vinnuheiti setti tóninn fyrir það sem lagið átti eftir að verða, en titillinn „Heima við“ vísar einmitt óbeint í það. 

Textinn fjallar um manneskju sem er ein heima eftir sambandsslit og eru alls kyns vísanir í upplifun Sigurrósar af því að hafa verið í sóttkví faldar í textanum.

Hvaðan kviknaði hugmyndin að tónlistarmyndbandinu?

Hugmyndin að myndbandinu kom út frá þessu þema, en það sýnir manneskju sem er ein heima á náttfötunum um miðjan dag og og gerir alls kyns hversdagslega hluti til að stytta sér stundir. Margar af þessum senum kannast eflaust margir við, enda hefur megnið af þjóðinni þurft að sitja í sóttkví yfir lengri eða skemmri tíma. 

Einhverjir kannast þá við að detta þá á kaf í eigin hugsanir og byrja að ímynda sér alls kyns spennandi aðstæður til að losna burt frá grámanum, tilbreytingarleysinu og einverunni sem fylgir þessari innilokun.

Hvað er á döfinni?

Við vorum að spila á Ljósanótt í Reykjanesbæ á laugardaginn og spilum á Gauknum 14. september þar sem við vonumst til að sjá sem flest! Síðan lumum við mögulega á fleiri myndböndum í náinni framtíð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×