Sport

Keppir í kvöld því Súperman-stökkið virkaði

Sindri Sverrisson skrifar
Joao Vitor de Oliveira kom sér í mark með svakalegum tilþrifum á EM.
Joao Vitor de Oliveira kom sér í mark með svakalegum tilþrifum á EM. Getty/Matthias Hangst

Joao Vitor de Oliveira er orðinn frægur fyrir stökkin sem hann tekur yfir marklínuna á frjálsíþróttamótum og það heppnaðist fullkomlega hjá honum í gær, í undankeppninni í 110 metra grindahlaupi.

Þrátt fyrir að hafa eitt sinn rifbeinsbrotnað við að kasta sér yfir marklínuna þá hættir Oliveira ekki að taka sín Súperman-stökk.

Í gær dugði það honum til þess að vinna sér sæti í undanúrslitum, sem fram fara í kvöld, og það munaði aðeins 2/1000 úr sekúndu. Hér að neðan má sjá stökkið.

Oliveira og Belginn Michael Obasuyi hlupu raunar báðir á 13,90 sekúndum en við nánari eftirgrennslan kom í ljós að Oliveira hefði eftir stökkið sitt náð að vera örlítið á undan.

Oliveira keppir á EM fyrir hönd Portúgals en hann keppti áður fyrir hönd Brasilíu, til að mynda á Ólympíuleikunum í Ríó árið 2016 þar sem stökk hans yfir marklínuna vakti einnig mikla athygli.

„Ég geri þetta alltaf. Þetta var ekkert slys,“ sagði Oliveira eftir Ólympíuleikana í Ríó 2016. „Ég byrjaði að gera þetta fyrir löngu síðan. Ef ég er í einhverri baráttu þá hendi ég mér fram. Ég gerði þetta á HM í Kína og braut rifbein. Fólk segir mér að vera ekki að gera þetta en ég geri þetta. Þetta kemur frá hjartanu,“ bætti hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×