Sport

Tvö ný heimsmet á lokadegi HM í frjálsíþróttum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Armand Duplantis og Tobi Amusan bættu bæði heimsmet í nótt.
Armand Duplantis og Tobi Amusan bættu bæði heimsmet í nótt. Vísir/Getty

Lokadagur HM í frjálsíþróttum kláraðist í nótt og því var vel við hæfi að tvö heimsmet hafi fallið. Svíinn Armand Duplantis bætti eigið heimsmet í stangastökki þegar hann flaug yfir 6,21m og nígeríska hlaupakonan Tobi Amusan setti nýtt heimsmet í 100m grindahlaupi.

Hinn 22 ára Duplantis hafði þegar tryggt sér gullið þegar hann fór yfir sex metrana í fyrstu tilraun, en enginn af keppinautum hans fór hærra en 5,94m.

Það var því aðeins spurning um með hversu miklum mun Duplantis myndi vinna mótið og því engin ástæða til að reyna ekki við sitt eigið heimsmet.

Eins og áður segir flaug Svíinn yfir 6,21m og bætti því gamla heimsmetið sitt sem var 6,20m. Það setti hann í mars á þessu ári, en þetta er í fimmta sinn sem sá sænski setur heimsmet í stangastökki.

Síðar um daginn setti hin nígeríska Amusan heimsmet í 100m grindahlaupi þegar hún kom í mark á tímanum 12,12 sekúndum í undanúrslutahlaupinu.

Amusan hafði sett Afríkumet í undanriðlunum þegar hún kom í mark á tímanum 12,40 sekúndur, en í nótt bætti hún um betur.

Hún bætti heimsmet hinnar bandarísku Kendra Harrison um átta hundruðustu úr sekúndu, en met hennar var 12,20 sekúndur frá árinu 2016.

Amusan lét sér þó ekki nægja að bæta heimsmetið í undanúrslitunum því hún kom fyrst í mark í úrslitahlaupinu og tók því gullið með sér heim til Nígeríu.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.