Lífið

Ó­trú­legur páfa­gaukur í Breið­holti getur ekki hætt að tala

Kristín Ólafsdóttir skrifar
STILLA HARRY FUGL 3

Fyrir um ári síðan byrjaði lítill en óvenjulegur páfagaukur í Breiðholti að tala, eiganda sínum að óvörum. Fuglinn býr nú yfir fjölbreyttum orðaforða, eins og sjá má í meðfylgjandi frétt.

Harry er um ársgamall gári, algengasta tegund páfagauka á Íslandi. En ólíkt flestum gárum býr yfir um 80 orða orðaforða, að sögn Tómasar Gauta Jóhannssonar, eiganda hans.

„Ég fór að pósta myndböndum á einhverjum Facebook-hópum og þá sagðist fólk aldrei hafa séð svona skýran fugl.“

Og Harry ræddi við fréttamann; sagði skýrt og greinilega „Harry“ og „kyssa“. Þau eru einmitt uppáhalds orð Harrys, þau sem hann segir oftast. Önnur í uppáhaldi eru bíbí, mamma, pabbi og ástin mín. Hann hermir eftir myndavélahljóðinu í iPhone-símum og er fljótur að læra.

„Eins og hann fór að segja mjög oft: Hvar er Dagný? En það er eitthvað sem við höfum aldrei kennt honum, það er enginn sem heitir Dagný í fjölskyldunni okkar. En þá var það úr einhverri auglýsingu, þegar við skildum sjónvarpið eftir í gangi,“ segir Tómas.

Þó að Harry sé fyrst og fremst hermikráka segir Tómas að ekki megi vanmeta gaukinn.

„Hann kyssir mann alltaf eftir að hann segir kyssa. Þannig að það eru ýmis orð sem hann skilur alveg.“

Harry nýtur sín best í félagsskap systur sinnar, gárans Dobbí. Hún talar ekki en aldrei að vita hvað framtíðin ber í skauti sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×