Hvalur 9 er núna á leið í Hvalfjörð með tvö dýr á síðunni og væntanlegur að hvalstöðinni fyrir kvöldið. Þá er Hvalur 8 einnig kominn með tvö dýr og búist við honum í nótt.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu veiddu báðir hvalbátarnir dýrin á svipuðum slóðum djúpt út af Faxaflóa um 180 sjómílur frá landi. Þaðan er um átján tíma sigling í Hvalfjörð.
Hvalvertíðin í ár hófst miðvikudaginn 22. júní þegar hvalbátarnir sigldu úr Reykjavíkurhöfn. Þá höfðu stórhvalaveiðar legið niðri frá haustinu 2018. Fyrstu hvalirnir veiddust svo fimmtudaginn 23. júní.
Stærsti hvalurinn til þessa mældist 69 fet eða 21 metri að lengd. Flestir hafa verið á bilinu 62 til 65 fet, eða milli 19 og 20 metra langir, en sá minnsti var um 58 fet, eða tæplega átján metra langur.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, skýrði frá því í aðsendri grein á Vísi í síðustu viku að á síðustu hvalvertíð sumarið 2018 hefðu meðallaun í vinnslunni í Hvalfirði verið rétt rúm ein milljón króna á mánuði. Sagði hann slegist um að fá störf hjá Hval hf. enda væru tekjumöguleikarnir umtalsverðir.
Kvaðst Vilhjálmur fagna því innilega að hvalveiðar væru nú stundaðar við Íslandsstrendur að nýju, enda hefðu þær mjög jákvæð áhrif á allt samfélagið á Akranesi og í nærsveitum.
„Þessar miklu tekjur skila sér svo sannarlega inn í samfélagið bæði hvað varðar útsvarstekjur fyrir sveitarfélögin og ekki síður hvað varðar verslun og þjónustu,“ sagði Vilhjálmur.