Innlent

Fólk gleymi þreytunni í gleðinni

Bjarki Sigurðsson skrifar
45 lið eru skráð til leiks á Pollamótinu í ár.
45 lið eru skráð til leiks á Pollamótinu í ár. Pollamótið

Pollamót Samskipa fer fram á Akureyri um helgina en metþátttaka er á mótinu í ár. Einhverjir eru þreyttir eftir tónleika í gærkvöldi en að sögn knattspyrnustjóra mótsins eru menn fljótir að gleyma því í gleðinni.

Pollamót Samskipa er haldið ár hvert samhliða N1-mótinu á Akureyri fyrstu helgina í júlí. Keppt er í sjö deildum en 45 lið eru skráð til leiks í ár sem er nýtt met. Mótið hefur gengið frábærlega þrátt fyrir einhver meiðsli. Tjútt gærkvöldsins hefur þó sett strik í reikninginn fyrir suma.

„Það hefur bara gengið glimmrandi vel. Auðvitað alltaf eitthvað sem kemur upp á, meiðsli og svona. Hér er fólk á öllum aldri og í alls konar formi að spila fótbolta, sumir eru að spila fótbolta sem hafa aldrei spilað fótbolta eða mjög lítið. Almennt séð hefur þetta gengið mjög vel,“ segir Haraldur Ingólfsson, knattspyrnustjóri mótsins.

Mikil sprenging er í þátttöku kvenna á mótinu í ár.Pollamótið

Seinni hluti mótsins fer fram í dag en í gærkvöldi tróðu Einar Ágúst og hljómsveitin ClubDub upp fyrir gesti. Því voru einhverjir keppendur þreyttir þegar þeir mættu til leiks í morgun.

„Neinei, klukkan níu á laugardegi eru fyrstu lið að mæta eftir skemmtun kvöldsins áður. Þá eru sumir þreyttir en það fer fljótt af mönnum. Það er líka að batna veðrið, það er að hlýna þó það sé ekki alveg glampandi sólskin. Auðvitað eru menn þreyttir en menn gleyma því í gleðinni.“

Þeir allra þreyttustu eru þó heima í dag.

„Það er stundum sem það er þannig að aðeins færri mæti á laugardagsmorgnum en eru að spila á föstudögum.“

Það er algengt að keppendur meiðist en Haraldur segir að það fylgi mótinu.

„Ég er ekki í stöðu til að meta meiðsli en það hefur þurft að kalla til sjúkrabíl tvisvar held ég. En maður veit ekkert hversu alvarleg meiðslin eru, geta verið krossbandaslys eða tognun. Ein og ein slitin hásin. Það eiginlega fylgir þessu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×