Enski boltinn

Salah framlengir við Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mohamed Salah hefur verið einn allra besti leikmaður heims undanfarin ár.
Mohamed Salah hefur verið einn allra besti leikmaður heims undanfarin ár. getty/Chris Brunskill

Stuðningsmenn Liverpool hafa ærið tilefni til að gleðjast í dag því Mohamed Salah hefur skrifað undir nýjan samning við félagið.

Samningur Salahs við Liverpool átti að renna út eftir næsta tímabil og mikil óvissa ríkti hvort hann yrði áfram hjá félaginu. Þeirri óvissu hefur nú verið eytt því hinn þrítugi Salah hefur framlengt samning sinn við Rauða herinn til 2025. Talið er að hann fái 350 þúsund pund í vikulaun.

Liverpool keypti Salah frá Roma 2017. Síðan þá hefur hann skorað 156 mörk í 254 leikjum fyrir liðið og unnið allt sem hægt er að vinna með því. Á síðasta tímabili varð Liverpool bikar- og deildarbikarmeistari, lenti í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar og tapaði fyrir Real Madrid í úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

„Mér líður frábærlega og hlakka til að vinna titla með liðinu. Þetta er gleðidagur fyrir alla,“ sagði Salah í tilefni undirskriftarinnar.

„Það tekur alltaf smá tíma að framlengja en núna er allt frágengið svo við þurfum bara að einbeita okkur að því sem framundan er. Undanfarin 5-6 ár höfum við alltaf tekið skref upp á við. Á síðasta tímabili vorum við nálægt því að vinna fjóra titla en töpuðum tveimur í lokin.“

Á síðasta tímabili skoraði Salah 31 mark, þar af 23 í ensku úrvalsdeildinni. Hann var markahæsti leikmaður hennar ásamt Son Heung-min hjá Tottenham.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.