Fótbolti

Fyrr­verandi sam­herji Dag­nýjar og Berg­lindar braut blað í sögunni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Carson Leighann Pickett spilaði sinn fyrsta A-landsleik fyrir Bandaríkin á dögunum. Með því skráði hún sig í sögubækurnar.
Carson Leighann Pickett spilaði sinn fyrsta A-landsleik fyrir Bandaríkin á dögunum. Með því skráði hún sig í sögubækurnar. Omar Vega/Getty Images

Carson Pickett skráði sig í sögubækurnar er hún spilaði í 2-0 sigri bandaríska kvennalandsliðsins í fótbolta á Kólumbíu.

Hin 28 ára gamla Pickett fæddist með vanþróaða útlimi (e. limb difference). Á hana vantar vinstri framhandlegginn og er hún fyrsti leikmaður sögunnar til að spila fyrir bandaríska kvennalandsliðið í fótbolta sem er ekki með fullmótaða útlimi.

Pickett hefur ekki látið þetta stöðva sig en hún gerði garðinn frægan með feykilega öfluga liði Florida State-háskólans. Þar skoraði hún meðal annars sigurmarkið í úrslitaleiknum 2014 en þá léku íslensku landsliðskonurnar Dagný Brynjarsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir með liðinu.

Carson hefur spilað sem atvinnumaður síðan hún útskrifaðist úr Florida State. Ásamt því að spila með Seattle Reign, Orlando Pride og North Carolina Courage í Bandaríkjunum hefur hún spilað með Brisbane Roar í Ástralíu og Apollon á Kýpur.

Carson stóð vaktina í vörn Bandaríkjanna er liðið lagði Kólumbíu og hrósaði þjálfari liðsins henni í hástert í leikslok. Hver veit nema við sjáum Carson spila fleiri leiki í búningi bandaríska landsliðsins í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×