Innlent

Erna Kristín tekur við sem ráðu­neytis­stjóri mennta- og barna­mála­ráðu­neytis

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Erna Kristín hefur verið skipuð í embætti ráðuneytisstjóra mennta- og barnamálaráðuneytis.
Erna Kristín hefur verið skipuð í embætti ráðuneytisstjóra mennta- og barnamálaráðuneytis. Stjórnarráðið

Erna Kristín Blöndal, skrifstofustjóri, hefur verið skipuð í embætti ráðuneytisstjóra mennta- og barnamálaráðuneytisins og tók við starfinu í dag. Hún tekur við af Páli Magnússyni, sem fer til starfa hjá fastanefnd Íslands í Genf og mun þar vinna á sviði málefna barna.

Skipun Páls í embættið var mjög umdeild á sínum tíma en kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu í júní 2020 að Lilja D. Alfreðsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, hafi brotið gegn jafnréttislögum með skipan hans. 

Páll var skipaður í embættið af Lilju frá og með 1. desember 2019 en hann hafði lengi verið virkur í Framsóknarflokknum og starfað sem aðstoðarmaður ráðherra en einnig sem bæjarritari Kópavogs. Þegar tilkynnt var um ráðninguna kom fram að þrettán hafi sótt um stöðuna en ráðherra hafi metið svo að Páll væri af þeim hæfastur. 

Hæfisnefnd hafði metið fjóra umsækjendur hæfasta og var Páll meðal þeirra. Auk Páls voru tvær konur og einn karl í hópnum. 

Fram kemur í tilkynningu frá mennta- og barnamálaráðuneytinu á vef stjórnarráðsins að Páll muni í Genf meðal annars vinna við að efla alþjóðlegt samstarf íslenskra stjórnvalda hvað varðar velferð og réttindi barna en einnig á sviði alþjóðavinnumála og alþjóðaheilbrigðismála. Hann muni á þeim sviðum meðal annars vinna að eflingu tengsla við Alþjóðavinnumálastofnunina (ILO) og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO).

Erna Kristín er með með bakkalár- og meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands og hefur samkvæmt tilkynningunni mikla reynslu af störfum innan Stjórnarráðsins og íslenskrar stjórnsýslu og hefur haldið utan um stór verkefni á vegum íslenskra stjórnvalda. 

Hún hefur gengt embætti skrifstofustjóra síðan 2019, fyrst á skrifstofu barna- og fjölskyldumála hjá félagsmálaráðuneytinu og nú síðast á skrifstofu barnamála í mennta- og barnamálaráðuneytingu. Áður var Erna verkefnastjóri hjá félagsmálaráðuneytinu 2018 til 2019 þar sem hún leiddi vinnu um endurskoðun á málefnum barna.

Þar áður var hún framkvæmdastjóri norrænnar stofnunar um fólksflutninga árin 2016 til 2018 og lögfræðingur og verkefnastjóri hjá innanríkisráðuneytinu, nú dómsmálaráðuneyti, frá 2009 til 2016. Auk þess hefur hún sinnt ýmsum nefndar- og stjórnarstörfum og meðal annars setið í stjórn og verið stjórnarformaður UNICEF á Íslandi.  


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×