Enski boltinn

Luka­ku til­­búinn að taka á sig launa­lækkun til að komast aftur til Inter

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Romelu Lukaku vill komast til Ítalíu.
Romelu Lukaku vill komast til Ítalíu. Simon Stacpoole/Getty Images

Orðrómar þess efnis að belgíski framherjinn Romelu Lukaku sé að snúa aftur til Mílanóborgar verða sífellt háværari. Nú virðist sem framherjinn sé búinn að samþykkja launalækkun til að geta snúið aftur til Inter.

Í gær greindi Vísir frá því að lögfræðingar Lukaku hafi verið á leið að hitta forráðamenn Inter til að ræða mögulega endurkomu framherjans. Lukaku lék með Inter frá árinu 2019 til 2021 áður en hann gekk aftur í raðir Chelsea á 97,5 milljónir punda.

Eftir að verða Ítalíumeistari með Inter var Lukaku tilbúinn að láta til sín taka í ensku úrvalsdeildinni. Það hefur engan veginn gengið eftir og nú vill hann komast aftur til Ítalíu.

Ítalski miðillinn La Gazzetta dello Sport greinir frá því að Lukaku hafi náð samkomulagi við Inter. Hann er tilbúinn að taka á sig verulega launalækkun svo vistaskiptin verði að veruleika.

Lukaku þénar rúmlega tíu milljónir punda árlega hjá Chelsea ásamt því að hann á möguleika á allt að tveimur og hálfri milljón punda til viðbótar í bónusgreiðslum. Framherjinn hefur samþykkt að ganga í raðir Inter og fá „aðeins“ tæplega sex og hálfa milljón punda ári.

Hann er þar með að samþykkja helmingi lægri laun árlega ef bónusgreiðslurnar eru teknar með í reikninginn.

Eina sem þarf nú er að Inter sannfæri Chelsea um að viðurkenna að Lukaku muni ekki virka og hleypi honum því til Ítalíu. Nær öruggt er að um lánssamning yrði að ræða þar sem Inter hefur ekki efni á að kaupa leikmanninn um þessar mundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×