Innlent

Mikilvægt að missa ekki fólkið: „Ef við höfum ekkert starfsfólk þá er enginn spítali“

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Már Kristjánsson segir ljóst að miklar áskoranir séu fram undan. 
Már Kristjánsson segir ljóst að miklar áskoranir séu fram undan.  Vísir/Vilhelm

Forstöðumaður bráðaþjónustu Landspítala segist kvíða því að fleiri starfsmenn muni fá nóg og segja upp störfum sökum álags, þar sem spítalinn er ekkert án þeirra. Verið sé að gera allt til að bregðast við stöðunni en ljóst er að miklar áskoranir séu fram undan.

Mikið álag er nú á bráðamóttökunni og öðrum deildum spítalans sem bitnar bæði á sjúklingum og starfsmönnum. Hjúkrunarfræðingar lýsa nagandi samviskubiti eftir hverja vakt og í gær sögðu fjórir upp störfum á bráðamóttökunni vegna álags. 

Már Kristjánsson, forstöðumaður lyflækninga- og bráðaþjónustu spítalans, segir það sorglegt að starfsfólk sjái ekki aðra lausn en að hætta og kvíðir því að fleiri fái nóg.

„Ég er fullur kvíða yfir því, vegna þess að það er þannig með svona stofnun eins og spítala, hann er ekki neitt nema starfsfólkið þannig ef við höfum ekkert starfsfólk er enginn spítali,“ segir Már og bætir við að færri starfsmenn geti þá sinnt verkefninu sem leiði til verri þjónustu.

Sumarið hefur í gegnum tíðina einnig verið sérstaklega erfiður tími í heilbrigðisþjónustu og er það staðan í ár. Margir vanir starfsmenn taka út frí, óreyndir nemar koma til starfa, og ferðamenn streyma í auknum mæli til landsins.

„Þegar þetta er allt vegið saman þá er það fyrirsjáanlegt að vera bæði með mannaflaskort hjá okkur, óvant fólk og síðan mikið af verkefnum. Þannig þetta verður mikil áskorun held ég,“ segir Már.

Bindur vonir við væntanlegar aðgerðir

Í grunninn sé vandamálið sem spítalinn stendur nú frammi fyrir fjölþætt, til að mynda hafi heimaþjónusta ekki verið efld nægilega mikið auk þess sem skortur er á hjúkrunar- og endurhæfingarrýmum.

Að sögn Más eru stjórnendur á spítalanum og stjórnvöld að grípa til allra tiltækra ráða til að bregðast við stöðunni. Heilbrigðisráðherra segir von á fleiri hjúkrunar- og endurhæfingarrýmum og síðar í vikunni verða tilkynntar breytingar á fyrirkomulagi tilvísana til bráðamóttökunnar og fleiri aðgerðir til að reyna að leysa úr flæðisvandanum.

„Ef að þetta gengur allt saman eftir þá bind ég vonir við að þetta muni bæta flæði sjúklinga í gegnum okkar þjónustu,“ segir Már „Þetta er verkefnið okkar að halda hérna uppi heilbrigðisþjónustu og þess vegna skiptir það svo miklu máli að við missum ekki fólk.“

Allt hangi þetta saman og bindur Már vonir við að aðgerðirnar leiði til þess að starfsmenn geti sinnt starfi sínu sem best á ný.

„Til þess að fólk öðlist gleðina og starfsgleðina á ný þá er það best gert með því að skapa fólki eðlileg viðfangsefni á eðlilegum stað í þjónustukeðjunni,“ segir Már.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×