Innlent

Lög­reglan skutlaði manni í strætó sem gekk síðan í skrokk á bíl­stjóranum

Bjarki Sigurðsson skrifar
Strætisvagninn var á leið til Akureyrar og átti árásin sér stað við lokastoppistöð ferðarinnar. 
Strætisvagninn var á leið til Akureyrar og átti árásin sér stað við lokastoppistöð ferðarinnar.  Vísir/Vilhelm

Maður sem var skilinn eftir af strætó á bensínstöð á Blönduósi fékk far með lögreglunni að Varmahlíð þar sem hann fór aftur í vagninn. Þegar komið var að endastöð gekk hann í skrokk á strætóbílstjóranum ásamt félaga sínum.

Fréttablaðið greinir frá því að 19. maí síðastliðinn hafi farþegi sem var á leið norður á land ásamt félaga sínum orðið eftir við stopp á bensínstöð á Blönduósi. Maðurinn hafi farið inn að kaupa sér pylsu en bílstjórinn þurfti að halda ferð sinni áfram þar sem maðurinn var of lengi inni. Félagi hans varð einn eftir í vagninum og byrjaði að þá að skammast í bílstjóranum.

Fundu manninn og skutluðu honum í Varmahlíð

Þegar bílstjórinn var kominn í Varmahlíð hafði stjórnstöð Strætó bs. samband við hann og bað hann um að bíða þar á meðan lögreglan skutlaði manninum aftur að vagninum. Lögreglumenn höfðu fundið manninn og ákveðið að gera honum greiða þar sem þeir voru á leið til Skagafjarðar.

Þegar maðurinn var kominn aftur í vagninn var ferðinni haldið áfram til Akureyrar þar sem seinasta stoppistöð ferðarinnar er.

Sakaður um að stela hring

Þar opnaði bílstjórinn töskurýmið fyrir farþegana og beið eftir því að allir tækju töskurnar sínar þegar annar mannanna sakar hann um að hafa stolið hring af sér. Bílstjórinn neitaði því og þá byrjuðu félagarnir að ganga í skrokk á honum.

Málið er til rannsóknar hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra og hjá stjórnendum Strætó. Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir í samtali við Fréttablaðið að beiðni lögreglunnar um að vagninn skildi bíða eftir þeim sé ansi óvenjuleg. Lögreglan hafi aldrei beðið um slíkt áður.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.