Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði og bæjarstjóri, segist vera ánægð með fyrstu tölur en Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylking eru hnífjöfn með 27,9 prósent atkvæða sem stendur. Það skilar hvorum flokki fjórum mönnum.
„Við erum bara ánægð, þetta er mikill varnarsigur,“ segir Rósa. Helsti mótherji hennar Guðmundur Árni Stefánsson, var himinlifandi með fyrstu tölur og sagði Samfylkinguna vinna stórkostlegan sigur, verði lokaniðurstaða sú sama og fyrstu tölur benda til, þegar fréttastofa náði tali af honum fyrr í kvöld.
Rósa bendir á að aðalatriðið sé að núverandi meirihluti haldi miðað við fyrstu tölur. Ljóst er að Framsóknarflokkurinn er með pálmann í höndunum, með sína tvo menn inni, og er í lykilstöðu þegar kemur að myndun meirihluta í Hafnarfirði. Framsókn er víðar í þeirri stöðu, til að mynda í Kópavogi og Mosfellsbæ.
„Ég er ekki hrædd við eitt eða neitt núna, nóttin er ung“ segir Rósa, spurð hvort hún óttist að Framsókn rjúfi meirihlutann og fari yfir til Samfylkingarinnar.
Hefði viljað halda fimmta manninum
Rósa segist hefði viljað halda fimmta bæjarstjórnarmanni flokksins en hún hefur þó alls ekki misst vonina.
Hún þekkir það nefnilega vel að fimmti maður geti dottið inn seinna. Fyrir fjórum árum bætti Sjálfstæðisflokkurinn við sig fimmta manni þegar lokatölur voru kynntar.
Hver sem lokaniðurstaðan verður segir Rósa að kosningabaráttan hafi verið frábær, heiðarleg og skemmtileg.