Menning

Engin á­stæða til að mót­mæla æðar­ræktinni

Snorri Másson og Eiður Þór Árnason skrifa
Hildur Steinþórsdóttir arkitekt og Rúna Thors hönnuður.
Hildur Steinþórsdóttir arkitekt og Rúna Thors hönnuður. Vísir

Hönnunarmars, stærsta hönnunarhátíð landsins, lauk í dag eftir litríka viku í Reykjavík þar sem framsækin hönnun hefur verið til sýnis og allar helstu nýjungar.

Rúmlega hundrað sýningar hafa verið á dagskrá hátíðarinnar víðs vegar um höfuðborgarsvæðið og leit Snorri Másson fréttamaður við á Tilraun – Æðarrækt, sem er þverfagleg sýning um sjálfbært sambýli æðarfugla og manna.

Verkefnið hófst árið 2019 og eru listamennirnir á sýningunni með fjölbreyttan bakgrunn í myndlist, hönnun, sviðslistum, tónlist og arkitektúr. Þátttakendur kynntu sér æðarvörp og fóru í ferðir um allt land til að kynna sér æðarræktina.

„Það er talað um að það séu sirka 350 svæði alls staðar á landinu. Þetta var áður í Skandinavíu en ekki lengur svo þetta er svolítið sérstakt hér,“ segir Hildur Steinþórsdóttir, arkitekt og einn sýningarstjóra.

Æðarvarpið hefst í lok maí og stendur í um það bil mánuð fram í júní.

„Æðabændurnir eru 24 tíma á vakt og eru að vernda fuglinn á fullu,“ bætir Hildur við en sýningin fer fram í Hvelfingunni í Norræna húsinu. Þar má meðal annars sjá og snerta æðadún sem er mjög verðmæt vara í ljósi lítils framboðs og að hann er eitt best einangrandi efni sem fyrirfinnst. Á sýningunni má til að mynda sjá æðardún sem kostar í kringum 350 þúsund krónur. 

Ekki sambærilegt gæsarækt

Aðstandendur sýningarinnar segja grundvallarmun á æðarrækt og gæsarækt en ólíkt gæsum reita æðarfuglar dún sinn sjálfir. Aukin umræða hefur verið um aðstæður gæsa sem ræktaðar eru fyrir dún þeirra og til að mynda hefur fataframleiðandinn Canada Goose, sem selur vinsælan vetrarklæðnað með slíkri einangrun, þurft að glíma við mótmælendur og aukna gagnrýni. 

„Þetta er allt annað. Þarna verður ákveðin hormónabreyting þegar kollan situr á eggjum til þess að ná að hita frá bringunni yfir á eggin og til að halda eggjunum heitum og það er enginn maður að plokka dún af fuglinum heldur er fuglinn varinn af manninum,“ segir Rúna Thors, hönnuður og einn sýningarstjóra. Um sé að ræða mjög gott samband manns og fugls.

„Þeir eru vinir í rauninni. Maðurinn talar við fuglinn, ver hann gegn vargi og fuglinn kemur aftur til sama bóndans ár eftir ár,“ segir Hildur.

Þær segja báðar að Hönnunarmars skipti miklu máli fyrir Íslendinga og alla sem komi nálægt hönnun.

„Þetta er auðvitað bara árshátíð hönnuða á Íslandi ég vona að allir þekki þessa hátíð og komi aftur að ári,“ segir Hildur. 

Áfram verður hægt að skoða sýninguna Tilraun – Æðarrækt í Hvelfingu í Norræna húsinu fram til 31. júlí næstkomandi.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.