Sport

Sjáðu þegar viljayfirlýsing um nýja þjóðarhöll var undirrituð

Sindri Sverrisson skrifar
Karlalandsliðið í handbolta lék á Ásvöllum í Hafnarfirði í apríl þegar liðið tryggði sér sæti á HM með sigri á Austurríki.
Karlalandsliðið í handbolta lék á Ásvöllum í Hafnarfirði í apríl þegar liðið tryggði sér sæti á HM með sigri á Austurríki. vísir/Hulda Margrét

Fulltrúar ríkisstjórnarinnar og Reykjavíkurborgar voru í Laugardalnum í dag þar sem undirrituð var viljayfirlýsing um byggingu nýrrar þjóðarhallar fyrir innanhúsíþróttir.

Vísir var á staðnum og sýndi beint frá undirrituninni þar sem stjórnmálafólkið var einnig til viðtals.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík undirrituðu viljayfirlýsinguna eins og sjá má hér að neðan.

Áætlað er að ný þjóðarhöll muni rísa í Laugardal á næstu þremur árum og segir Ásmundur Einar vonir standa til þess að fyrsta skóflustunga verði tekin innan árs.

Um árabil hefur verið kallað eftir nýrri höll fyrir landslið Íslands í handbolta og körfubolta sem verið hafa með undanþágu hjá alþjóðlegu sérsamböndunum til að spila heimaleiki sína. 

Laugardalshöll er löngu komin til ára sinna og hefur auk þess staðið tóm frá því í nóvember 2020 vegna vatnsskemmda en vonir standa til þess að hægt verði að spila í henni að nýju í haust.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.