Menning

Upp­risa Aldrei fór ég suður um helgina

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Gert er ráð fyrir því að fjölmargir leggi leið sína til Ísafjarðar um helgina.
Gert er ráð fyrir því að fjölmargir leggi leið sína til Ísafjarðar um helgina. Instagram/Aldreialdrei

Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður verður haldin á Ísafirði nú um helgina eftir tveggja ára hlé vegna kórónuveirufaraldursins. Meðal tónlistarmanna verða Bríet, Mugison og Páll Óskar.

Hátíðin fer fram í Kampa-skemmunni hinn 15. og 16. apríl en hún var haldin í fyrsta sinn árið 2004. Auk hátíðarinnar verður skíðavikan svokallaða á Ísafirði en sú hefur verið haldin frá árinu 1935. Tónleikahaldarar segja páskahefð margra að skella sér á skíði og á rokkhátíðina.

„Stemningin er alveg rafmögnuð. Þetta er sami hópurinn sem hefur verið að skipuleggja þessa hátíð og það er mikill spenningur hérna í loftinu í bænum, mikið af uppákomum út um allt og komin mikil tilhlökkun í mann,“ segir Kristján Freyr Halldórsson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar.

Mikill fjöldi fólks er nú þegar kominn til Ísafjarðar og Kristján segir að gistipláss í bænum sé nánast uppurið.

Mugison, Moses Hightower og Páll Óskar

Einvalalið tónlistarmanna, bæði landsþekktra og heimamanna, mun koma fram á hátíðinni. Meðal þeirra sem koma fram eru Mugison, Moses Hightower, Aron Can, Páll Óskar og Inspector Spacetime.

„Við leikum okkur alltaf að því að blanda saman heimafólki og svo landsþekktu, og á öllum aldri. Þessu blöndum við alltaf í eina súpu, þetta er bara alls konar blanda. Ég held að það sé svona besta við það að fólk kemur kannski hingað til að sjá Moses Hightower en sér svo hljómsveitina Skratta. Þá er það alltaf að sjá eitthvað nýtt. Fólk opnar augun fyrir hinu og þessu,“ segir Kristján Freyr.

Síðast var hátíðin haldin árið 2019 en þá kom metfjöldi á hátíðina. Kristján segir að þá hafi tekist að „tvöfalda íbúðafjöldann“ fyrir vestan og hann vonar að jafn vel muni ganga í ár.


Tengdar fréttir

Aldrei fór ég suður fer fram í ár

Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður, sem haldin er um páskana á Ísafirði, verður haldin þetta árið. Hátíðinni hefur verið slegið af síðustu tvö ár vegna kórónuveirufaraldursins. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.