Lífið

Hægða­stoppandi lyf gerðu Sigga ó­leik á fyrsta stefnu­mótinu

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Þau Siggi og Sonja eru viðmælendur í nýjasta þætti af hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása.
Þau Siggi og Sonja eru viðmælendur í nýjasta þætti af hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása. Betri helmingurinn með Ása

„Ég vissi ekki að hún væri einhleyp. En eftir á er bara mjög fínt að hafa haldið það, því ég var ekkert stressaður í kringum hana,“ segir Siggi Þór um fyrstu kynnin við unnustu sína Sonju. Þau smullu saman og fóru fljótlega á sitt fyrsta stefnumót sem tók óvæntan snúning fyrir Sigga.

Leikarinn Sigurður Þór Óskarsson hefur gert garðinn frægan á fjölum leikhúsanna sem og í sjónvarpsþáttum og kvikmyndum. Þessa dagana fer hann á kostum í kvikmyndinni Allra síðasta veiðiferðin og leikritinu Emil í Kattholti.

Hans betri helmingur, Sonja Jónsdóttir, er nýkomin heim frá San Fransisco þar sem hún hefur verið að læra vefhönnun undanfarin ár.

Siggi og Sonja voru gestir í 51. Þætti af hlaðvarpinu Betri helmingurinn með Ása sem hóf göngu sína síðasta vor. Umsjónarmaður þáttanna er Ásgrímur Geir Logason. Hann fær til sín þjóðþekkta einstaklinga ásamt þeirra betri helming og ræðir um ástarsambandið, lífið og tilveruna.

Örlagarík afmælisveisla

Í þættinum segja þau frá því hvernig þau kynntust í fimmtugsafmæli hjá móður sameiginlegrar vinkonu þeirra beggja, Eygló Hilmarsdóttur.

„Ég sá á Snapchat að Eygló var að opna kampavín og klukkan var fimm um daginn og ég spyr hana eitthvað út í þetta. Þá segir hún mér að mamma hennar eigi afmæli og ég eigi endilega að koma. Ég segi: „Uuh nei, ég er ekki að fara mæta í fimmtugsafmæli til mömmu þinnar“. En hún segir mér að ég verði að koma, það séu fleiri vinir okkar á leiðinni því mamma hennar hafi sagt henni að hún mætti endilega bjóða vinum sínum,“ segir Siggi frá.

Siggi var ekki með nein önnur plön þetta fimmtudagskvöld og ákvað því að skella sér. Sú ákvörðun reyndist honum afar örlagarík, því í veislunni hitti hann Sonju.

Feginn að hafa haldið að Sonja ætti kærasta

„Ég hafði stundum séð hana með Eygló og vissi svona af henni. En ég vissi ekki að hún væri einhleyp, því hún átti kærasta síðast þegar ég vissi. En eftir á er það mjög fínt að hafa haldið það, því ég var ekkert stressaður í kringum hana.“

Það var svo á ákveðnum tímapunkti í veislunni sem Siggi og Sonja voru bara tvö saman. Þá ákvað Eygló, vinkona þeirra, að grípa tækifærið og spyrja Sigga hvernig honum gengi á stefnumótaforritinu Tinder.

„Ég segi að það gangi nú ekki neitt, þetta sé nú meira ruglið. Þá spyr hún: „En hvernig gengur hjá þér á Tinder Sonja?“ og svo bara fór hún,“ en þarna varð Sigga ljóst að Sonja væri einhleyp og við það fór hjartað hans að slá töluvert hraðar.

Siggi og Sonja kynntust í fimmtugsafmæli hjá móður sameiginlegrar vinkonu og hafa þau verið saman allar götur síðan.

Við tók eftirminnileg kvöldstund þar sem þau spjölluðu saman langt fram á kvöld og áttu svo fyrsta kossinn. Nokkrum dögum síðar bauð Siggi henni svo á fyrsta stefnumótið.

„Hann kom og sótti mig og við fórum og keyptum okkur ís. Það er klassískt, því maður hefur tíma til að spjalla en hefur samt eitthvað að gera. Svo fórum við í einhvern göngutúr.“ segir Sonja.

Siggi bætir því hins vegar við að það hafi verið skítaveður. Hann hafi tekið með teppi og ætlað að skapa rómantíska stemmingu en það hafi ekki alveg tekist.

Fóru hringinn í kringum landið á öðru stefnumóti

Næsta stefnumót var svo heldur óhefðbundnara. Það hafði verið mikil leiðindaspá í höfuðborginni. Þegar Sonja sá svo að það stefndi í bongóblíðu á Egilsstöðum stakk hún upp á því að þau myndu skella sér þangað. Þá vildi svo skemmtilega til að listahátíðin LungA átti akkúrat að fara fram þessa helgi.

Þau eru sammála um að það hafi verið djörf ákvörðun að skella sér í átta klukkutíma bílferð með einhverjum sem þau þekktu varla. Ferðalagið hafi hins vegar verið frábær leið til þess að kynnast.

„Að vera komin í Borgarnes og átta sig þá á því: „Jesús ég þoli hana ekki!“, það væri mesta martröð sem ég get ímyndað mér.“

Ferðalagið gekk þó svo vel að þau enduðu á því að fara hringinn í kringum Ísland, og hafa þau verið saman allar götur síðan.

Frjálslegt fyrirkomulag hjálpaði þeim í fjarbúðinni

Samband þeirra varð þó fljótlega að fjarsambandi þegar Sonja hélt út í nám. Þau segja fjarbúðina hins vegar hafa gengið mun betur en þau höfðu þorað að vona. Það gat verið mikið að gera hjá þeim báðum, en þau sýndu dagskrá hvors annars mikinn skilning.

„Þetta var ekki þannig að við urðum að heyrast á hverjum einasta degi í X langan tíma á dag. Ég held að þetta „loose“ fyrirkomulag sem við vorum með hafi hjálpað okkur.“

Siggi og Sonja trúlofuðu sig fyrir tveimur árum, í miðju samkomubanni. Siggi hafði keypt hringa og var ákveðinn í því að biðja hennar, en beið eftir rétta augnablikinu.

Hann greip svo tækifærið eitt kvöldið sem þau ákváðu að elda fínan mat heima og klæða sig upp. Þau segja frá bónorðinu í klippunni hér að neðan.

Klippa: Betri helmingurinn með Ása - Siggi Þór og Sonja

„Nú verður þetta deit að fara að klárast!“

Í þættinum segir Siggi vandræðalega en afar fyndna sögu sem tengist þeirra fyrsta stefnumóti.

„Við skipuleggjum þetta deit á miðvikudegi, en á þriðjudeginum þá verð ég svolítið slæmur í maganum. Það heldur svo áfram á miðvikudeginum en ég vildi alls ekki sleppa þessu deiti. Það er agalega vont að byrja á því, það gefur þá tilfinningu að ég sé ekki til í þetta. Ég vildi alls ekki missa hana frá mér,“ segir Siggi.

Í örvæntingu sinni ákvað hann að bregða á það ráð að taka hægðastoppandi lyf.

„Ég hef aldrei prófað þetta lyf áður. Svo þegar fer aðeins að líða á deitið þá byrjar maginn bara að bólgna út og ég þurfti svo mikið að prumpa!“

Þau voru hins vegar að eiga djúpar og góðar samræður og sátu lengi úti í bíl fyrir utan heimili Sonju að spjalla.

„Ég hugsaði bara: „Nú verður þetta deit að fara að klárast“,“ segir Siggi.

Þegar hann kom svo heim til sín eftir stefnumótið gat hann loksins losað um vindinn sem hafði verið að safnast upp í maganum á honum allt stefnumótið.

„Ég tók sko video af mér að prumpa eftir þetta og þau eru rosaleg! Ég sýndi henni þetta ekkert fyrr en nokkrum árum síðar. Ég var alveg að drepast í maganum.“

Hér að neðan má hlusta á viðtalið við þau Sigga og Sonju í heild sinni.


Tengdar fréttir

Voru á leið í glasa­frjóvgun þegar þau fengu ó­vænt já­kvætt ó­léttu­próf

Einar og Milla höfðu verið samstarfsfélagar í þónokkur ár þegar ástin kviknaði á milli þeirra. Þau giftu sig í miðjum heimsfaraldri og eiga þau nú von á sínu fyrsta barni saman. Þau tala opinskátt um það að hafa glímt við ófrjósemi, en þau voru á leiðinni í glasafrjóvgun þegar kraftaverkið kom óvænt undir.

Féll ó­vænt fyrir manninum sem var að búa til styttu af nöktum líkama hennar

Listaparið Brynhildur og Heimir hefur verið saman frá árinu 2010. Það má með sanni segja að samband þeirra hafi byrjað með óhefðbundnum hætti. Þau smullu þó saman eins og flís við rass og voru flutt saman til Bandaríkjanna nokkrum mánuðum eftir að þau kynntust og hafa þau verið saman allar götur síðan.

Á­skorun að þurfa að horfa á maka sinn njóta ásta með annarri mann­eskju

Listafólkið Arnar Dan og Sigga Soffía urðu ástfangin á göngum Listaháskólans enda segir Arnar fátt meira heillandi en að sjá manneskju í essinu sínu. Sigga viðurkennir þó að það hafi reynst henni erfitt að þurfa horfa á Arnar nakinn í ástarsenu með annarri konu á nemendasýningu skólans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×