Sport

„Erfiðast að vinna deildarmeistaratitilinn“

Andri Már Eggertsson skrifar
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með að landa deildarmeistaratitlinum
Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var ánægður með að landa deildarmeistaratitlinum Vísir/Hulda Margrét

Njarðvík tryggði sér deildarmeistaratitilinn með sigri á Keflavík 98-93. Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, var afar ánægður með árangurinn í deildarkeppninni sem skilaði efsta sætinu.

„Menn stigu upp í kvöld og gerðu virkilega vel. Við reiknuðum með áhlaupum frá Keflavík og það þurfti margt að ganga upp til að vinna þennan leik og fannst mér mikið hjarta í liðinu,“ sagði Benedikt Guðmundsson í samtali við Vísi eftir leik.

Benedikt var ekki ánægður með varnarleik Njarðvíkur og hefði hann viljað sjá sína menn frákasta betur.

„Mér fannst Keflvíkingar halda sér inni í leiknum á sóknarfráköstum þar sem þeir fengu tvö þrjú skot í hverri sókn og verðum við að fara gera betur þar. Sóknarleikurinn var góður en ég hefði viljað fá færri stig á mig.

Benedikt var afar ánægður með að verða deildarmeistari og vildi síður en svo tala titilinn niður.

„Þetta er erfiðasti titilinn til að vinna. Það er miklu erfiðara að vinna þennan titil heldur en bikarmeistaratitilinn þar sem þú þarft bara að vinna 4-5 leiki mögulega færðu neðrideildarlið en til að vinna deildarmeistaratitilinn þarftu að vera góður í marga mánuði og er það synd hvað það er búið að gjaldfella þennan titil miðað við hvað hann er erfiður,“ sagði Benedikt Guðmundsson ánægður með deildarmeistaratitilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×