Sport

Arnar Logi áfram á sigurbraut og í Íslandsmetaham á Bretlandseyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Logi Brynjarsson úr ÍR stóð sig mjög vel á innanhússtímabilinu.
Arnar Logi Brynjarsson úr ÍR stóð sig mjög vel á innanhússtímabilinu. Instagram/@arnar_brynjarsson

Spretthlauparinn stórefnilegi Arnar Logi Brynjarsson úr ÍR endaði innanhússtímabilið glæsilega um helgina þegar hann náði sínum besta árangri í þremur greinum.

Arnar Logi hefur undanfarnar tvær helgar verið á sigurbraut á unglingamótum á Bretlandseyjum.

Fyrst vann hann tvenn gullverðlaun á unglingameistaramóti Englands og um helgina gerði hann enn betur og vann þrefalt á unglingameistaramóti Norður-Írlands.

Það sem meira er að Arnar Logi bætti sinn besta persónulega árangur í öllum þremur greinum og í tveimur þeirra var hann að setja Íslandsmet í sínum aldursflokki.

Arnar Logi setti Íslandsmet í 200 metra hlaupi með því að hlaupa á 23,03 sekúndum á mótinu í Englandi og bætti það um helgina um leið og hann komst í fyrsta sinn undir 23 sekúndurnar.

Arnar hljóp á 22,99 sekúndum. Hann bætti einnig eigið Íslandsmet fimmtán ára og yngri með því að hlaupa 60 metrana á 7,21 sekúndum. Arnar bætti enn frekar sinn besta árangur í langstökki með því að stökkva 5,80 metra.

Arnar Logi verður ekki fimmtán ára fyrr en í október og því gæti hann ógnað Íslandsmetunum líka þegar utanhússtímabilið fer í gang.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×