Björk Jakobsdóttir er leikstjóri verksins auk þess sem hún skrifar leikgerðina sem byggir á verðlaunabókum Bergrúnar Írisar Sævarsdóttur; Langelstur í bekknum, Langelstur í Leynifélaginu og Langelstur að eilífu.
Þær Nína Sólrún Tamimi og Iðunn Eldey Stefánsdóttir skiptast á að leika aðalhlutverkið, Eyju, á móti Sigga Sigurjóns sem fer með hlutverk Rögnvaldar, en hann hefur verið fastur í fyrsta bekk í 90 ár.

Foreldra Eyju leika þau Ásgrímur Geir Logason og Júlíana Sara Gunnarsdóttir og fara þau á kostum í verkinu. Ásgrímur og Júlíana Sara voru eitt sinn gift en Björk grínaðist með að hún hafi fengið leyfi áður en hún paraði þau saman og þakkaði núverandi mökum þeirra fyrir skilninginn.

Það er einstaklega viðeigandi að verkið sé sett upp í Gaflaraleikhúsinu í Hafnarfirði en þrír bæjarlistamenn Hafnarfjarðar koma að þessu verkefni. Siggi Sigurjóns var bæjarlistamaður ársins 2008, Björk árið 2019 og Bergrún Íris árið 2020.

Í verkinu leikur stór hópur ungra barna og voru fjölskyldur litlu leikaranna að vonum stolt af frammistöðu þeirra. Magnús Geir Þórðarson, sem sjálfur hefur stýrt þremur leikhúsum, er faðir Árna Gunnars sem fer með hlutverk Magna í sýningunni. Magnús hafði þetta um frumsýningu Langelstur að eilífu að segja:
„Þetta er dásamlega falleg fjölskyldusýning sem kætir og bætir. Bráðfyndin sýning en líka hjartnæm og nærandi. Algjör krúttbomba þar sem börnin brillera við hlið stórkostlegra atvinnuleikara með okkar frábæra Sigga Sig í broddi fylkingar. Við, foreldrarnir, erum að springa af stolti yfir frammistöðu okkar manns, elsku Árna Gunnars.“

Tónlist Mána Svavars setur punktinn yfir i-ið en Máni samdi sex ný lög sem eru hvert öðru betra og verða eflaust á allra vörum innan skamms. Uppselt er á nokkrar sýningar en hægt er að tryggja sér miða á tix.is.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar fleiri myndir frá frumsýningarhelgi Langelstur að eilífu.














