Lífið

Sendi Valentínusar­kveðju á ástina sína í kvöld­fréttum

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Tveir rómantíkusar, alls ótengdir en eiga það sameiginlegt að ætla að gleðja maka sína í dag.
Tveir rómantíkusar, alls ótengdir en eiga það sameiginlegt að ætla að gleðja maka sína í dag. vísir/arnar

Elskendur hafa margir haldið Valentínusardaginn hátíðlegan í dag með blómum, böngsum og súkkulaðimolum. Við litum við í blómabúð þar sem rómantískt andrúmsloftið var nánast áþreifanlegt. Þar ræddum við við blómasala og tvo rómantíkusa, sem voru í leit að gjöfum fyrir maka sína í tilefni dagsins.

„Dagurinn byrjaði alveg vel og þó svo að það hafi verið mikið ófært og mikill snjór að þá lata menn sig hafa það að kaupa blóm á Valentínusardaginn. Og konur líka, að sjálfsögðu,“ segir Þórdís Zophia, fagstjóri blómadeildar Garðheima.

Færðin á höfuðborgarsvæðinu í morgun kom ekki í veg fyrir blómakaup fólks. „Ástin sigrar allt. Bæði ófærð og Covid,“ segir Þórdís. 

Þórdís segir mikið hafa verið að gera í dag enda sigri ástin allt, einnig vonda færð.vísir/arnar

Hún segir konur og karla jafndugleg við að gleðja maka sína í tilefni dagsins. Karlarnir eiga það þó til að kaupa veglegri gjafir.

„Fólk er alveg að eyða  um þúsund krónum í eina rós og alveg upp í tuttugu, þrjátíu þúsund,“ segir Þórdís. Rauðar rósir eru þó alltaf vinsælastar og súkkulaðihjörtun gera einnig gott mót.

Sjónvarpskveðja og blómvöndur

Salan á blómum eykst alltaf mjög í kring um Valentínusardaginn og virðist komin mikil hefð fyrir deginum hér á landi. Allavega voru viðmælendur okkar í blómabúðinni á því máli.

„Ég vaknaði við blóm klukkan 6 í morgun þannig að greinilega,“ segir Margrét Sól sem var stödd í Garðheimum að leita að gjöf til að endurgjalda manninum greiðann.

„Ég vona að hann verði ánægður með þetta,“ segir Margrét Sól. Hún vill þó ekki gefa upp hvað var í pakkanum enda óviss um hvort kærastinn yrði búinn að opna hann á kvöldfréttatíma.

Jakob Fannar Stefánsson er annar rómantíker sem við rákumst á í Garðheimum í dag. Hann gefur blómvönd í ár.

Gefurðu alltaf blóm á Valentínusardaginn? 

„Já, ég held það nú. Ég er líka mikill blómamaður og gef reglulega blóm,“ segir Jakob Fannar, sem ákveður að nýta tækifærið í kvöldfréttum til að senda ástinni sinni stutta kveðju í tilefni dagsins:

„Ásdís Halla Einarsdóttir, til hamingju með daginn. Ég elska þig.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.