Innlent

Metfjöldi greindist í gær: 2.254 greindust innanlands

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Aldrei hafa fleiri greinst á einum sólarhring hér á landi. 
Aldrei hafa fleiri greinst á einum sólarhring hér á landi.  Vísir/Vilhelm

Alls greindust 2.254 smitaðir af kórónuveirunni innanlands í gær en aldrei hafa fleiri greinst með veiruna á einum sólarhring frá upphafi faraldursins hér á landi.

Um er að ræða metfjölda á einum sólarhring en um er að ræða 400 fleiri tilfelli en síðasta met, þar sem 1857 greindust smitaðir innanlands síðastliðinn föstudag. Alls voru 4.753 einkennasýni greind og voru 29 prósent í sóttkví við greiningu. 

Alls eru nú 11.111 í einangrun og 8.342 eru í sóttkví, að því er kemur fram á covid.is. Átján greindust smitaðir á landamærunum þar sem 304 sýni voru greind. 

33 sjúklingar liggja á Landspítala með COVID-19 og fækkar því um tvo á milli daga. Tveir eru á gjörgæslu og báðir í öndunarvél. Í gær var staðan þannig að 35 sjúklingar voru á Landspítala með Covid-19. Einn var á gjörgæslu og var hann í öndunarvél.

Aldrei fleiri greinst á Norðurlandi eystra

Greint er frá tölum dagsins í Facebook færslu lögreglunnar á Norðurlandi eystra en þar er sömuleiðis greint frá því að metfjöldi hafi greinst á Norðurlandi eystra í gær eða alls 375 manns. Þá hafa aldrei jafn margir verið í einangrun á sama tíma í umdæminu.

„Eitthvað virðist veðrið síðustu daga hafa blásið Covid á milli manna, a.m.k. ef við horfum í stöðuna í okkar umdæmi,“ segir í Facebook færslu lögreglunnar á Norðurlandi eystra um Covid stöðuna í umdæminu.

Mikið álag var á sýnatökum í gær að sögn lögreglu, sem og Sjúkrahúsinu á Akureyri sem sér um að greina sýni.

„Það var þá alveg í samræmi við fjölda sýna að við vorum með mesta fjölda smitaðra einstaklinga á sólarhring í gær, samtals 375 manns,“ segir í færslunni en alls eru nú 1163 í einangrun í umdæminu, þar af lang flestir á Akureyri.

Uppfært 10:20:

Samkvæmt upplýsingum á covid.is greindust 2.254 innanlands og 18 á landamærunum. Samanlagt er um að ræða sama fjölda og lögreglan á Norðurlandi eystra greinir frá. 


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×