Platan mun bera nafnið Donda2 en listamaðurinn góðkunni gaf samnefnda plötu, Donda, í ágúst á síðasta ári. Nafnið kemur frá móður Kanye, Dondu West, sem lést árið 2007.
Samkvæmt færslu tónlistarmannsins er fyrirhugaður útgáfudagur 22. febrúar á þessu ári. Útgáfa plötunnar virðist því vera á næsta leiti en því ber þó að taka með fyrirvara, eins og nánar verður rakið.
Útgáfu fyrri plötunnar var frestað um heilt ár en hún átti upphaflega að koma út í júlí árið 2020. Boltinn fór svo loks að rúlla þann 22. júlí 2021 en þá hélt West svokallað hlustunarpartý á Mercedes-Benz leikvanginum í Atlanta. Daginn eftir bólaði þó ekkert á plötunni.
Platan kom þó loks út þann 29. ágúst í fyrra og hlaut mikið lof aðdáenda. Það verður því spennandi að fylgjast með því hvort fyrrnefndur útgáfudagur Dondu 2 haldist.
Þrátt fyrir almenna væntingastjórnun og mögulegar útgáfutafir ber að nefna að það er enginn annar en rapparinn Future sem verður yfirframleiðandi (e. excecutive producer) plötunnar. Blaðamaður leyfir sér því að fullyrða að aðdáendur eigi von á góðu, hvenær sem það þá verður.