Veður

Leiðinda­veður víða um land í nótt og á morgun

Árni Sæberg skrifar
Þorrinn hefst af krafti.
Þorrinn hefst af krafti. Vísir/Vilhelm

Appelsínugular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir Norð-Vesturhluta landsins sem gilda til klukkan 18 á morgun. Þá eru gular viðvaranir í gildi víða um land.

Veður verður ekki eins og helst yrði á kosið á landinu í nótt og meirihluta morgundags. „Sérstaklega á Norð-Vesturhluta landsins verður mjög slæmt veður og svona leiðindaveður víða annars staðar, þó það verði ekki jafnvont,“ segir vakthafandi veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands í samtali við Vísi.

Á Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra er suðvestan stormi eða roki og snjókomu eða élagangi spáð. Vindhraði verður á bilinu 15 til 28 metrar á sekúndu og allt að 40 metrar í hviðum.

„Það er appelsínugult af því það fylgir þessu fyrst snjókoma eða slydda og síðan élagangur. Élagangur getur spillt færð,“ segir veðurfræðingur.

Á Faxaflóa, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum og Miðhálendi verður vindhraði svipaður en þó án úrkomu. Því eru gular viðvaranir í gildi þar.

Þegar hefur tekið að hvessa víða en veður ætti að vera orðið með kyrrum kjörum fyrir kvöldmatarleyti annað kvöld.

„Það fer að draga hægt og rólega úr þessu um hádegi á morgun og um sex er þetta orðið mun skárra,“ segir veðurfræðingur.

Ljóst er að ekkert ferðaveður verður á morgun.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.