Innlent

Sex­tíu prósent í yngsta aldurs­hópnum vilja banna sölu flug­elda til einka­nota

Atli Ísleifsson skrifar
Í könnun Prósents sögðust 44 prósent svarenda vera sammála því að banna eigi sölu flugelda til einkanota.
Í könnun Prósents sögðust 44 prósent svarenda vera sammála því að banna eigi sölu flugelda til einkanota. Vísir/Egill

Sextíu prósent Íslendinga í aldurshópnum 18 til 24 ára vilja banna sölu flugelda til einkanota.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri könnun Prósents þar sem þrjár spurningar um flugelda voru lagðar fyrir svarendur. Fyrsta spurningin sneri að því hvort fólk kaupi flugelda, önnur um hvort takmarka eigi magn flugelda sem hver einstaklingur megi kaupa, og sú þriðja hvort banna eigi sölu á flugeldum til einkanota.

Í tilkynningu segir að um 36 prósent svarenda hafi sagst kaupa flugelda og 64 prósent svarenda kaupi ekki.

Fólk búsett á landsbyggðinni er líklegra en fólk sem býr á höfuðborgarsvæðinu til að kaupa flugelda  og auk þess kaupa karlar frekar flugelda en konur. Þá eru þau sem eru í aldurshópnum 35-44 ára frekar að kaupa flugelda en þau sem yngri eru og 55 ára og eldri.

Meira en helmingur þjóðarinnar, eða 52 prósent, sagðist vera því sammála því að takmarka eigi það magn flugelda sem hver einstaklingur vegi kaupa. Um 14 prósent svarenda sögðust hvorki sammála né ósammála og 34 prósent ósammála.

„Íslendingar í aldurshópnum 18-24 ára er meira sammála því að takmarka eigi magn flugelda sem hver einstaklingur má kaupa en þau sem eldri eru. Auk þess eru konur meira sammála en karlar og íbúar höfuðborgarsvæðisins meira sammála en íbúar landsbyggðarinnar. 60% kvenna er sammála því að hafa takmarkanir á móti 44% karla.“

Þá sögðust 44 prósent svarenda vera sammála því að banna eigi sölu flugelda til einkanota, 15 prósent sögðu hvorki né og 41 prósent sögðust vera því ósammála. Konur voru meira sammála en karlar og 60 prósent svarenda í aldurshópnum 18 til 24 ára vilja banna sölu flugelda til einkanota á meðan hlutfallið var 38 prósent í aldurshópnum 55 til 64 ára.

Gögnum var safnað frá 30. desember 2021 til 9. janúar 2022. Var notast við netkönnun meðal könnunarhóps Prósents. Úrtak var 2.300 einstaklingar 18 ára og eldri og voru svarendur 1.118, eða 49 prósent.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×