Innlent

Köstuðu flug­eldum inn í skóla­stofur

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
FotoJet (34)
Vísir/Vilhelm/Aðsend

Nokkrir óþekktir einstaklingar köstuðu flugeldum inn í skólastofur Verzlunarskóla Íslands fyrr í dag. Enginn slasaðist en nokkrar skemmdir urðu á gólfdúk. Skólastjóri segir að málið sé til skoðunar og telur ólíklegt að um nemendur skólans hafi verið að ræða. 

Nemandi í Verzlunarskólanum segir í samtali við fréttastofu að enginn samnemenda hans hafi kannast við sökudólgana. Atvikið átti sér stað í lok skóladags en einhverjir nemendur skólans sátu enn inni í sínum skólastofum.

„Þeir köstuðu flugeldum í nokkrar stofur. Svo bara fór kerfið í gang og kom mikill reykur. Svo hlupu þeir út þegar þeir föttuðu að það væru myndavélar,“ segir nemandinn í samtali við fréttastofu. Hann bætir við að flugeldarnir hafi blessunarlega ekki verið stórir.

Guðrún Inga Sívertsen, skólastjóri Verzlunarskólans, segir að ekki liggi fyrir hverjir hafi verið að verki. Verið sé að skoða myndavélar haft hefur verið samband við lögreglu sem er með málið til rannsóknar.

Nokkrar skemmdir urðu á gólfdúk í skólanum.Aðsend

„Það sprungu tveir litlir flugeldar inni í kennslustofum og við erum bara að skoða hver kveikti þá - sem betur fer urðu engin slys á neinum. Það urðu smá skemmdir á gólfdúk í kennslustofum en í rauninni er þetta bara mál sem við erum með í skoðun,“ segir Guðrún Inga.

„Ég náttúrulega bara óskaði eftir því að þeir sem voru þarna að verki myndu gefa sig fram. Ég hef nú ekki heyrt frá neinum þannig að ég vil ekki draga neinar ályktanir strax. Ég hef það mikla trú á nemendum okkar að ég held að þeir væru búnir að gefa sig fram ef þeir höfðu staðið að þessu. Ég held þetta hafi átt að vera fyndið en fór algjörlega úr böndunum.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×