Innlent

Arna Schram látin

Jakob Bjarnar skrifar
Arna Schram lést í gær aðeins 53 ára að aldri.
Arna Schram lést í gær aðeins 53 ára að aldri. Reykjavíkurborg

Arna Schram, sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg og fyrrverandi formaður Blaðamannafélags Íslands, lést á Landspítalanum í gær, 53 ára að aldri.

Arna fæddist 15. mars árið 1968 í Reykjavík, dóttir Ellerts B. Schram, fv. ritstjóra og þingmanns, og Önnu Guðlaugar Ásgeirsdóttur tölvuritara.

Arna varð stúdent frá MR árið 1988. Hún lauk BA-gráðu í stjórnmálafræði og heimspeki frá Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla, auk MBA gráðu með áherslu á stjórnun, rekstur og markaðsmál frá Háskólanum í Reykjavík.

Arna starfaði lengst af sem blaðamaður og það var hennar ástríða. Fyrst á DV og síðan á Morgunblaðinu frá 1995 til 2006. Síðar var hún aðstoðarritstjóri tímaritsins Krónikunnar og fréttastjóri á Viðskiptablaðinu.

Hún starfaði einnig fyrir Háskólann í Reykjavík og var stjórnarformaður Listdansskóla Íslands.

Árið 2010 hóf hún störf sem upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar og varð síðar forstöðumaður menningarmála hjá Kópavogsbæ. Árið 2017 tók hún við starfi sviðsstjóra menningar- og ferðamálasviðs Reykjavíkurborgar og gegndi því til dauðadags.

Arna tók virkan þátt í félagsstarfi blaðamanna og gegndi mörgum trúnaðarstörfum fyrir Blaðamannafélag Íslands. Hún var varaformaður félagsins 2003 til 2005 og formaður á árunum 2005 til 2009.

Eftirlifandi dóttir Örnu er Birna Ketilsdóttir Schram, f. 1994.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.