Fótbolti

AC Milan tyllti sér á toppinn | Bjarki Steinn kom inná í fyrsta sinn

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Zlatan skoraði fyrsta mark leiksins
Zlatan skoraði fyrsta mark leiksins EPA-EFE/ETTORE GRIFFONI

Bjarki Steinn Bjarkason leikmaður Venezia í ítölsku úrvalsdeildinni, Serie A, kom inn á sem varamaður á 88. mínútu í leik á móti AC Milan. Milan vann leikinn með þremur mörkum gegn engi og eru komnir í toppsætið.

Liðsmenn AC Milan töldust sigurstranglegri í leiknum og tóku fljótlega yfir. Zlatan Ibrahimovic skoraði fyrsta mark leiksins strax á 2. mínútu þegar hann stýrði fyrirgjöf frá Rafael Leao í markið af stuttu færi. Magnaður Zlatan sem varð fertugur í október á síðasta ári.

Staðan í hálfleik var 0-1. Það tók heldur ekki langan tíma í síðari hálfleik að koma marki inn. Theo Fernandez skoraði þá skemmtilegt mark úr þröngri stöðu eftir að hafa fengið sendingu inn fyrir vörnina frá Leao.

Fernandes innsiglaði svo sigurinn með marki úr vítaspyrnu á 59. mínútu. Michael Svoboda varði þá með hendi á marklínunni og fékk rautt spjald að launum og vítaspyrna réttilega dæmd.

Bjarki Steinn Bjarkason kom svo inná í sínum fyrsta leik í Serie A á 88. mínútu en náði ekki að setja mark sitt á leikinn sem hafði fjarað út. Góður 3-0 sigur AC Milan staðreynd og liðið komið á topp deildarinnar, tveimur stigum á undan Inter sem eiga þó tvo leiki til góða. Venezia er í 16. sæti með 17 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×