Lífið

Pantaði jóla­tré en fékk nær­buxur í staðinn

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Til vinstri er annað trjánna sem hjónin pöntuðu og til hægri eru nærbuxurnar sem þeim bárust.
Til vinstri er annað trjánna sem hjónin pöntuðu og til hægri eru nærbuxurnar sem þeim bárust. Facebook/Arnar Sigurðsson

Flestir hafa pantað vörur af netinu og einhverjir lent í því að önnur vara komi í staðinn. Þá er vandamálið yfirleitt smávægilegt; til dæmis peysa sem er númeri of lítil, eða græn berist í stað blárrar. Arnari nokkrum brá heldur betur í brún þegar pakki sem hann hafði pantað frá Kína kom loks til hingað til lands.

Arnar Sigurðsson segir frá því á Facebook-síðu sinni að Berglind Dís Guðmundsdóttir, eiginkona hans, hafi fengið þá „frábæru hugmynd“ að panta tvö gervijólatré í fullri stærð af netinu. Trén átti að senda frá Kína en seljandinn var eitthvað tregur til að senda jólatrén, enda rúmir tveir metrar að stærð og sendingarkostnaður þar að auki mikill.

Berglind hafði þá samband við seljandann sem kvaðst loks ætla senda trén af stað. Á hjónin runnu tvær grímur þegar skilaboð bárust frá Íslandspósti: „Sendingin er tilbúin til afhendingar í póstboxi.“ Í pakkanum voru nærbuxur - ekki tvö jólatré í fullri stærð.

„Okkur fannst þetta sniðugt, að panta jólatré af netinu. Það kostaði ekki neitt og við ákváðum að panta tvö. Það var svolítið sérstakt þegar þetta komst fyrir í póstboxi,“ segir Arnar í samtali við fréttastofu og hlær. Hann bætir við að seljandinn hafi enn ekki svarað en segir að þetta hafi glatt vini og vandamenn mjög.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.