Erlent

Þungir dómar vegna elds­voða sem varð 242 að bana

Árni Sæberg skrifar
242 léstust í eldsvoða á skemmtistaðnum Kiss
242 léstust í eldsvoða á skemmtistaðnum Kiss Neco Varella/EPA

Fjórir hafa verið dæmdir í fangelsi í Brasilíu vegna eldsvoða á skemmtistað sem varð 242 að bana árið 2013.

Eldur kom upp á skemmtistaðnum Kiss í Santa Maria í Brasilíu árið 2013 eftir að meðlimir hljómsveitar, sem þar tróð upp, kveiktu á blysum á sviði.

Frá blysunum barst eldur í loftklæðningu skemmtistaðarins sem var fljótt alelda, þá risu eiturgufur upp þegar klæðningin brann. Mikill troðningur var á staðnum og fór svo að 242 gestir og starfsmenn létu lífið, flestir vegna innöndunar reyks.

Tveir meðlimir hljómsveitarinnar, Marcelo de Jesus dos Santos og Luciano Bonilha Leão, hafa nú verið dæmdir til átján ára fangelsisvistar vegna hluta þeirra í málinu. Breska ríkisútvarpið greinir frá.

„Því fleiri inni, því betra“

Tveir eigendur skemmtistaðarins, Elissandro Spohr og Mauro Hoffmann, hlutu þyngri dóma. 22 og nítján ára fangelsi hvor um sig.

Rannsókn lögreglu á sínum tíma leiddi í ljós að engin slökkvitæki var að finna á Kiss og neyðarútgangar voru einungis tveir. 

Þá sagði Kátia Giane Pacheco Siqueira, starfsmaður Kiss sem lifði eldsvoðann af, að stefna skemmtistaðarins hafi verið „Því fleiri inni, því betra.“ Hún hlaut alvarleg brunasár á tæplega helming líkama síns.

Fjórmenningunum hefur verið sleppt úr haldi þar sem þeir hafa allir áfrýjað málinu.

Eldsvoðar á skemmtistöðum algengir

Svo virðist vera sem algengara sé að mannskæðir eldsvoðar verði á skemmtistöðum en annars staðar. Í kjölfar eldsvoðans sem hér um ræðir tók AP fréttastofan saman lista yfir mannskæðustu skemmtistaðaeldsvoða sögunnar. Því miður er ljóst að nokkuð hefur bæst við þennan lista frá árinu 2013.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.