Fótbolti

Markvörður danska dínamítsins á HM í Mexíkó 1986 dáinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Högh með danska landsliðsmarkverðinum Kasper Schmeichel eftir landsleik.
Lars Högh með danska landsliðsmarkverðinum Kasper Schmeichel eftir landsleik. Getty/Lars Ronbog

Danir misstu í fyrrinótt einn af leikmönnum eftirminnilegs landsliðs síns frá níunda áratugnum þegar Lars Högh lést 62 ára gamall.

Högh var starfandi markmannsþjálfari hjá Bröndby og danska landsliðinu þegar hann lést.

Margir hafa minnst Högh ekki bara fyrir hversu góður markmaður hann var heldur einnig fyrir hversu góð manneskja hann var.

Högh lést eftir harða baráttu við krabbamein í brisi. Viku áður en hann lést hafði hann verið tekinn inn í heiðurshöll danska knattspyrnusambandsins.

Lars Högh átti langan feril með liði OB frá Óðinsvéum þar sem hann spilaði allan tímann alls 603 leiki frá 1977 til 2000. Hann náði þrisvar að verða danskur meistari með félaginu og var fimm sinnum kosinn markvörður ársins í Danmörku.

Hann hefur síðan ferlinum lauk starfað sem markmannsþjálfari hjá danska landsliðinu frá árinu 2007 og hjá Bröndby frá árinu 2016. Hann var einnig markmannsþjálfari hjá öðrum dönskum félögum eins Nordsjælland, AaB,Viborg og OB.

Högh spilaði með danska landsliðinu frá 1983 til 1995. Hann lék reyndar aðeins átta landsleiki á öllum þessum tíma en tveir af þeim voru á HM í Mexíkó 1986.

Högh var þá í markinu í 2-0 sigri á Vestur-Þjóðverjum í riðlakeppninni og svo í 5-1 tapinu á móti Spáni í sextán liða úrslitunum.

Danir slógu í gegn með frábærri spilamennsku á þessum árum og danska liðið fékk viðurnefnið danska dínamítið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×