Enski boltinn

Carrick: Kannski er það bara mýta að Cristiano Ronaldo geti ekki pressað

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo fær fyrirmæli frá Michael Carrick áður en hann kom inn á völlinn í Chelsea-leiknum.
Cristiano Ronaldo fær fyrirmæli frá Michael Carrick áður en hann kom inn á völlinn í Chelsea-leiknum. Getty/Clive Rose

Michael Carrick stýrir liði Manchester United á móti Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og margir bíða spenntir eftir því hvort að hann setji Cristiano Ronaldo aftur inn í byrjunarliðið.

Carrick var að sjálfsögðu spurður út Cristiano Ronaldo á blaðamannafundi fyrir leikinn og þá sérstaklega þá umræðum um að framtíð Portúgalans sé ekki alltof björt nú þegar Ralf Rangnick taki við. Knattspyrnustjóri sem vill að liðið sitt pressi andstæðinga sína og að fremstu menn hlaupi mikið.

Tölfræði Ronaldo á þessu tímabili sem og á því með Juventus síðasta vetur bendir til þess að hann sé ekki mikið að loka á varnarmenn. Carrick heldur því fram að þessi 36 ára framherji geti aðlagast að kröfum Rangnick.

„Þú sagðir að það sé mýta og kannski er það bara mýta. Kannski er það bara þannig,“ sagði Michael Carrick um það að Cristiano Ronaldo geti ekki pressað.

„Hann hefur spilað með nógu mörgum liðum, náð árangri með því að spila margvíslegan leikstíl og hefur skorað mörk fyrir öll lið. Ég er viss um að hann haldi áfram að skora mörk, það er engin vafi hjá mér um það,“ sagði Carrick.

Rangnick er enn ekki kominn með atvinnuleyfi og því missir hann af leiknum á Old Trafford í kvöld. Það þýðir jafnframt að hann fær ekki mikinn tíma áður en leikjaálagið skellur á liðinu en eftir leikinn í kvöld mun United spila átta leiki á tæpum 30 dögum áður en árið er liðið.

Cristiano Ronaldo átti annars ekki góða viku. Byrjaði á bekknum í stórleiknum á móti Chelsea og horfði síðan Lionel Messi vinna sjöunda Gullhnöttinn.

Ef sagan segir okkur eitthvað þá verður fróðlegt að fylgjast með kappanum í kvöld en oftar en ekki hefur hann spilað best þegar hann telur sig þurfa að sanna eitthvað. Leikurinn í kvöld er kjörið tækifærið til þess.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×