Innlent

Ókeypis leikskóli og tónlistarskóli í Reykhólahreppi

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Reykhólahreppur er sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum með um tæplega 250 íbúa. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er góð.
Reykhólahreppur er sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum með um tæplega 250 íbúa. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er góð. Aðsend

Mikil ánægja er hjá foreldrum barna í Reykhólahreppi því á nýju ári verða leikskólagjöld og tónlistarnám í sveitarfélaginu ókeypis fyrir börn. Ástæðan er góð afkoma sveitarfélagsins.

Reykhólahreppur er sveitarfélag á sunnanverðum Vestfjörðum með um 250 íbúa. Sveitarfélagið er stærsti vinnustaðurinn og svo Þörungaverksmiðjan á Reykhólum, sem gefur góðar tekjur til sveitarfélagsins. Í ljósi góðrar afkomu Reykhólahrepps hefur sveitarstjórn ákveðið að fella niður leikskólagjöld frá næstu áramótum, auk þess verða gjöld í tónlistarnám felld niður. Mikil ánægja er með þessa ákvörðun sveitarstjórnar.

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir er sveitarstjóri Reykhólahrepps.

„Það er bara fín staða hjá Reykhólahreppi eins og er og við þökkum svo sannarlega fyrir það. Þess vegna getum við látið þennan draum rætast, sem hefur verið að velkjast með fulltrúum í sveitarstjórn frá því að þeir tóku við 2018. Við höfum verið að vinna að því að búa svolítið vel um börnin í Reykhólahreppi og reyna að gera fjölskyldunum lífið svolítið léttara. Það er mjög gaman að geta gert þetta,“ segir Ingibjörg Birna.

Ingibjörg Birna Erlingsdóttir, sveitarstjóri Reykhólahrepps, sem er mjög stolt af því að sveitarfélagið ætli að nýju ári að bjóða upp á gjaldfrjálsan leikskóla og tónlistarskóla í Reykhólahreppi.Aðsend

13 börn eru í leikskóla Reykhólahrepps og 10 í tónlistarskólanum. Ingibjörn Birna segir að með ókeypis leikskóla og tónlistarskóla vonist sveitarfélagið til þess að geta laðað fleiri barnafjölskyldur og þar með fleiri íbúa til sín í góða samfélagið í Reykhólahreppi.

„Já, ég held að það muni um þetta fyrir fjölskyldurnar og þetta eru þær fjölskyldur, þetta er unga fólkið og fólk er jafnvel með tvö eða þrjú börn og þetta er bara stór hluti af ráðstöfunartekjum fólks,“ bætir Ingibjörg Birna við.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.