Erlent

Hafna kröfu Rússa um undan­hald frá Dónetsk

Samúel Karl Ólason skrifar
Hér má sjá þá Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu (til hægri), og Andriy Yermak, starfsmannastjóra Selenskís. Sá síðarnefndi leiðir sendinefnd Úkraínumanna í Genf í dag að en hann þykir umdeildur þessa dagana vegna stórs spillingarmáls sem skók nýverið Úkraínu.
Hér má sjá þá Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu (til hægri), og Andriy Yermak, starfsmannastjóra Selenskís. Sá síðarnefndi leiðir sendinefnd Úkraínumanna í Genf í dag að en hann þykir umdeildur þessa dagana vegna stórs spillingarmáls sem skók nýverið Úkraínu. AP/Efrem Lukatsky

Erindrekar og embættismenn frá Bandaríkjunum, Úkraínu og öðrum ríkjum Evrópu koma saman í Genf í Sviss í dag þar sem ræða á umdeildar friðartillögur sem eiga að  koma frá Bandaríkjamönnum, varðandi stríðið í Úkraínu. Úkraínskir og evrópskir erindrekar eru sagðir tilbúnir til að samþykkja þó nokkra af liðum ætlunarinnar en ætla að krefjast töluverðra breytinga.

Sendinefnd Úkraínumanna verður leidd af Andrí Jermak, starfsmannastjóra Vólódímírs Selenskí, forseta Úkraínu, og verður hún einnig skipuð erindrekum frá Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi.

Bandarísku nefndinni verður stýrt af Rubio en AP fréttaveitan segir að búist sé við að með honum verði Dan Driscoll, sem er ráðherra bandaríska hersins og fékk það hlutverk að kynna friðaráætlunina fyrir Úkraínumönnum og fá þá til að skrifa undir hana, og Steve Witkoff, sérstakur erindreki Donalds Trump, sem sagður er hafa komið að því að skrifa áætlunina, ásamt rússneskum auðjöfri.

Sjá einnig: Þing­menn segja eitt en Rubio annað - Marg­saga um upp­runa og til­gang friðartillagnanna

Selenskí sagði í yfirlýsingu fyrr í að jákvætt væri að viðræður væru hafnar að nýju og að hann vonaðist eftir jákvæðri niðurstöðu.

„Það verður að binda enda á blóðsúthellingarnar og við verðum að tryggja að stríðið hefjist alrei að nýju.“

Ráðamenn í Evrópu hafa unnið hörðum höndum að því undanfarna daga að vinna að breytingartillögum á friðaráætluninni, sem þykir halla verulega á Úkraínumenn.

Vilja öryggistryggingu í takt við NATO-aðild

Bloomberg sagði frá því í morgun að Úkraínumenn og evrópskir bandamenn þeirra myndu krefjast þess að skipting landsvæðis verði ekki rædd fyrr en búið sé að koma á skilyrðislausu vopnahléi. Það hafa Rússar ekki viljað samþykkja á undanförnum mánuðum.

Úkraínu- og Evrópumenn ætla að leggja til að Bandaríkin veiti Úkraínu öryggistryggingu sem líkist fimmta ákvæði stofnsamnings NATO um sameiginlegar varnir.

Þá segir miðillinn að til standi að hafna alfarið þeirri kröfu að Úkraínumenn hörfi frá stóru svæði í Dónetskhéraði og gefi Rússum stjórn á því.

Einnig ætla Úkraínu- og Evrópumenn að krefjast þess að engar takmarkanir verði settar á stærð úkraínska hersins og að frystir sjóðir Rússa í Evrópu verði nýttir til enduruppbyggingar Úkraínu.

Liðirnir sem þykja verstir

Þeir liðir sem eru sagðir falla hvað verst í kramið í Kænugarði snúa að landsvæði og öryggistryggingum. Friðaráætlunin þykir loðin þegar kemur að fullveldi Úkraínu og öryggistryggingum handa Úkraínumönnum.

Þversagnir í liðum áætlunarinnar

Í stuttu máli sagt felur áætlunin í sér að Úkraínumenn yfirgefi alfarið Donbas-svæðið svokallaða. Það er myndað af Lúhansk- og Dónetsk-héruðum en Úkraínumenn stjórna enn stórum hluta síðarnefnda héraðsins.

Það svæðið þykir mjög víggirt og hafa Rússar varið miklu púðri í að reyna að hernema það á undanförnum árum.

Rússar halda einnig þeim svæðum sem þeir hafa lagt undir sig í Kherson og Sapórisjía, auk Krímskaga, samkvæmt áætluninni. Þessi fimm héruð hafa Rússar innlimað ólöglega, með breytingum á stjórnarskrá ríkisins.

Vísað er til þess í áætluninni að Rússar muni gefa eftir hernumin svæði í öðrum hlutum Úkraínu, eins og í Súmí og Karkív en þau ákvæði eru nokkuð óljós um hvernig og hvenær það ætti að gerast.

Ráðamenn í Úkraínu hafa ítrekað sagt að þeir muni aldrei viðurkenna formlega eignarrétt Rússa á hernumdum svæðum í Úkraínu.

Sjá einnig: Jafn­gildi upp­gjöf fyrir Úkraínu­menn

Oleksandr Meresjkó, forseti utanríkismálanefndar úkraínska þingsins, hefur bent á að áætlunin innihaldi margar þversagnir. Þar á meðal sé vísað til þess að Úkraína haldi fullveldi sínu en í kjölfarið komi nokkrir liðir sem grafi undan því fullveldi eða brjóti hreinlega gegn því, eins og að gefa eftir landsvæði.

Loðin loforð og tryggingar

Áætlunin er einnig loðin þegar kemur að öryggisráðstöfunum eða tryggingum sem eiga ganga á út á að koma í veg fyrir að Rússar geti gert aðra innrás í Úkraínu eftir nokkur ár og reynt að klára verkið.

Samkvæmt tillögunum mættu Úkraínumenn aldrei ganga í Atlantshafsbandalagið og þar að auki yrði að takmarka stærð úkraínska hersins við sex hundruð þúsund manns. Úkraínumenn mættu ekki taka á móti erlendum hermönnum og hömlur yrðu settar á hvaða ríkjum þeir mættu starfa með á sviði varnarmála.

Þegar kemur að Rússum eiga þeir, samkvæmt tillögunum, að lofa því að ráðast ekki inn í fleiri nágrannaríki og það loforð á að vera bundið í rússnesk lög.

Fyrir þetta fengju Rússar felldar niður allar refsiaðgerðir gegn ríkinu, aftur aðgang að alþjóðamörkuðum og langtíma efnahagslegt samstarf við Bandaríkin, svo eitthvað sé nefnt.

Öflugur her næstbesta tryggingin

Úkraínumenn hafa lengi sagt að besta öryggistryggingin fyrir þá væri innganga í NATO. Það virðist ekki í myndinni að svo stöddu, miðað við orð Donalds Trump og nokkurra annarra ráðamanna innan bandalagsins um að Úkraína fái ekki inngöngu.

Næsti kostur Úkraínumanna er að byggja upp öflugan her og öfluga hergagnaframleiðslu en til þess þarf mikla peninga og hafa vonir verið bundnar við að þeir gætu komið úr frystum sjóðum Rússa í Evrópu.

Sjá einnig: Vilja gera Úkraínu að tormeltum „stálbroddgelti“

Friðaráætlunin setur það einnig í uppnám.


Tengdar fréttir

Útskýrði næstu skref fyrir Kristrúnu og kollegum

Volodimír Selenskí Úkraínuforseti sat fjarfund með forsætisráðherra Íslands í morgun auk annarra þjóðarleiðtoga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Hann segist hafa útskýrt næstu skref Úkraínumanna í friðarviðræðum. Forsætisráðherra Íslands segir nauðsynlegt að Evrópa sé við samningaborðið, en Bandaríkjamenn vilja að Úkraínumenn samþykki friðartillögur sem samdar voru af ráðamönnum í Moskvu og Washington.

Pútín tekur vel í „friðaráætlun Trumps“

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, segir að friðaráætlun sem kynnt var fyrir ráðamönnum í Úkraínu á dögunum, gæti verið grunnur að friðarsamkomulagi milli Rússlands og Úkraínu. Á fundi þjóðaröryggisráðs Rússlands í gærkvöldi hótaði Pútín að leggja undir sig enn meira landsvæði í Úkraínu, verði áætlunin ekki samþykkt.

„Annaðhvort þessir 28 liðir eða gífurlega erfiður vetur“

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, ávarpaði þjóð sína í dag og sagði hana í einhverri erfiðustu stöðu sem þjóðin hefði upplifað. Helstu bandamenn Úkraínumanna reyndu að þvinga þá til að gera slæmt samkomulag við Rússa, sem hefðu reynt að sigra Úkraínu í ellefu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×