Innlent

Sjúklingur á geðdeild með Covid-19 og allir skimaðir

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mikið álag er á Landspítalanum um þessar mundir. 
Mikið álag er á Landspítalanum um þessar mundir.  Vísir/vilhelm

Inniliggjandi sjúklingur á geðdeild Landspítalans greindist með Covid-19 í gær. Sjúklingar jafnt sem starfsfólk er komið í sóttkví og óskar Landspítalinn eftir liðsinni fólks með bakgrunn í geðheilbrigðisþjónustu.

Viðkomandi var með neikvætt sýni þegar hann var lagður inn á deildina en fékk svo einkenni um liðna helgi sem gátu bent til Covid-19. Hann fór í sýnatöku í gærmorgun og reyndist smitaður. Hann er því í einangrun og sex samsjúklingar í sóttkví. Auk þess voru þrír nýútskrifaðir sjúklingar settir í sóttkví.

Rakning í starfsmannahópnum stendur yfir og ljóst að nokkur hópur starfsmanna þarf að fara í sóttkví vegna smitsins. Heildarfjöldi liggur ekki fyrir fyrr en síðdegis í dag. Allir sjúklingar á deildinni voru skimaðir í morgun og er niðurstöðu að vænta síðar í dag.

Vegna þess hve margir starfsmenn þurfa að fara í sóttkví óskar Landspítalinn eftir liðsinni einstaklinga með bakgrunn í geðheilbrigðisþjónustu, bæði faglærða jafnt sem ófaglærða.

168 greindust smitaðir hér á landi í gær sem er met hér á landi frá upphafi faraldursins. Mjög mikið álag er á Covid-göngudeild. Símtölum til nýsmitaðra er forgangsraðað og mega þeir sem eru bólusettir, í yngri kantinum og ekki með nein undirliggjandi vandamál búast við að fyrsta símtal verði ekki fyrr en á næstu dögum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.