Tónlist

„Eitthvað næs við að koma heim“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Nanna Bryndís og Ragnar kíktu á Ívar Guðmunds fyrr í dag og ræddu það sem þau eru að gera þessa dagana.
Nanna Bryndís og Ragnar kíktu á Ívar Guðmunds fyrr í dag og ræddu það sem þau eru að gera þessa dagana. bylgjan

Hljómsveitin Of Monsters and Men heldur ferna tónleika í næstu viku í Gamla bíó. Þau hafa verið á Íslandi síðustu mánuði vegna Covid-19 en þau voru á tónleikaferðalagi þegar faraldurinn hófst.

„Við vorum að ferðast með þriðju plötuna okkar. Við náðum samt alveg sex mánuðum eða eitthvað“ sagði Nanna Bryndís Hilmarsdóttir í viðtali hjá Ívari Guðmunds á Bylgjunni í dag. Hljómsveitin hafði heimsótt Ameríku, Evrópu og Asíu áður en heimsfaraldurinn fór af stað. Þau gerðu auðvitað ráð fyrir að komast fljótlega aftur af stað á tónleikaferðalagið en það fór þó ekki þannig.

„Svo erum við bara búin að vera á Íslandi,“ segir Ragnar Þórhallsson.

„Það var eitthvað næs við að koma heim og vera bara á Íslandi og fá aðeins tíma. Við erum alltaf á flakki.“

Ragnar segir að það hafi verið gott að stoppa og líta aðeins til baka. Eins og við sögðum frá hér á Vísi er hljómsveitin að gefa út afmælisútgáfu af sinni fyrstu breiðskífu, í tilefni að því að tíu ár eru liðin frá útgáfunni. Á plötunni má finna tvö áður óútgefin lög.

„Þetta eru lög sem eru búin að vera með okkur síðan áður en við gerðum fyrstu plötuna, við tókum þátt í Músíktilraunum með þessum lögum“ útskýrir Ragnar.

Hljómsveitin vinnur nú að nýrri plötu og stefnir á að fara í upptökuver á næsta ári. 

„Við erum ekki alveg í dvala.“

Viðtalið má heyra í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan en þar tala þau meðal annars um upphafið, afmælisplötuna og tónleikaröðina í næstu viku. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×