Fótbolti

Mergjað mark í MLS í nótt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dairon Asprilla verður líklega næsti handhafi Puskás-verðlaunanna.
Dairon Asprilla verður líklega næsti handhafi Puskás-verðlaunanna. getty/Shaun Clark

Dairon Asprilla skoraði stórkostlegt mark í leik Portland Timbers og San Jose Earthquakes í MLS-deildinni í nótt.

Kólumbíumaðurinn Yimmi Chara kom Portland yfir á 34. mínútu og eftir tíu mínútur í seinni hálfleik bætti landi hans, Asprilla, öðru og öllu eftirminnilegra marki við.

Asprilla fékk þá stungusendingu inn fyrir vörn San Jose. Markvörðurinn JT Marcinkowski var á undan í boltann en missti hann svo klaufalega frá sér í baráttu við Asprilla. Sá kólumbíski hélt boltanum einu sinni á lofti og átti svo hjólhestaspyrnu frá hægra vítateigshorninu. Asprilla náði góðu skoti og boltinn skoppaði inn í markið.

Þetta mergjaða mark má sjá hér fyrir neðan frá tveimur mismunandi sjónarhornum.

Mark Asprillas hefur skiljanlega vakið mikla athygli og það hefur meðal annars verið orðað við Puskás verðlaunin sem eru veitt fyrir fallegasta mark ársins.

Asprilla hefur átt gott tímabil með Portland og skorað tíu mörk og lagt upp þrjú í 32 deildarleikjum. Portland er í 4. sæti Vesturdeildarinnar með 49 stig.

Hinn 29 ára Asprilla hefur leikið með Portland síðan 2015. Hann er einn fjögurra Kólumbíumanna í leikmannahópi Portland.

MLSFleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.