Innlent

Leita að hentugra bráða­birgða­hús­næði fyrir börnin á Efsta­hjalla

Þorgils Jónsson skrifar
Myglu varð vart í tengibyggingu á leikskólanum Efstahjalla í Kópavogi. Börnum er nú ekið á þrjá staði í bænum en leitast er við að finna hentugra bráðabirgðahúsnæði.
Myglu varð vart í tengibyggingu á leikskólanum Efstahjalla í Kópavogi. Börnum er nú ekið á þrjá staði í bænum en leitast er við að finna hentugra bráðabirgðahúsnæði. Mynd/Kópavogsbær

Kópavogsbær vinnur nú að því að finna nemendum í leikskólanum Efstahjalla í Kópavogi húsnæði innan hverfis, en börnunum hefur verið ekið með rútu á þrjá staði síðan myglu varð vart í húsnæði skólans fyrr í mánuðinum.

Þetta var meðal þess sem kom fram á fundi sem boðað var til með foreldrum og fulltrúum bæjarins á mánudaginn.

Að sögn upplýsingafulltrúa Kópavogsbæjar fór leikskólastjóri yfir stöðu mála ásamt öðrum fulltrúum bæjaryfirvalda. 

Meðal annars kom fram í máli fulltrúa frá eignadeild bæjarins að enn væri verið að taka út húsnæði skólans, en mygla fannst eftir að leka varð vart í tengibyggingu milli eldri og yngri hluta skólans.

Um leið og staðfest var að um myglu væri að ræða var húsnæðinu lokað og börnunum fundinn tímabundið húsnæði á þremur stöðum í bænum. Yngstu börnin eru í Íþróttahúsinu í Digranesi, miðdeildirnar í leikskólanum Austurkór og elstu börnin í Guðmundarlundi. Eins og fyrr segir er nú unnið að því að finna hentugra húsnæði innan hverfisins á meðan metin eru næstu skref með mygluna í Efstahjalla.

Upplýsingafulltrúi segir aðspurð að engir foreldrar hafi haft samband við bæjarskrifstofu vegna veikinda og sömuleiðis hafi engar tilkynningar borist vegna starfsfólks.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×