Um­fjöllun, mörk og myndir: Real Madrid - Breiða­blik 5-0 | Blikar áttu aldrei mögu­leika í hitanum í Madríd

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Caroline Møller fagnar einu af þremur mörkum sínum í kvöld.
Caroline Møller fagnar einu af þremur mörkum sínum í kvöld. Denis Doyle/Getty Images

Þrenna dönsku landsliðskonunnar Caroline Møller Hansen í fyrri hálfleik gerði út um leik Real Madríd og Breiðabliks í Meistaradeild Evrópu. Ekki hjálpaði mark strax í upphafi síðari hálfleiks, lokatölur 5-0 heimakonum í vil.

Eftir frábæra frammistöðu gegn París Saint-Germain í síðustu viku var mikil bjartsýni fyrir leik Real Madríd og Breiðabliks ytra í kvöld. Sú bjartsýni var ef til vill byggð á fölskum forsendum en Blikar áttu því miður í raun aldrei möguleika í spænsku höfuðborginni.

Fyrsta markið kom strax á 6. mínútu leiksins. Caroline Møller átti þá frábært hlaup af miðjunni, í gegnum miðja vörn Blika. Kenti Robles fann Møller með góðri sendingu, sú danska tók við knettinum og þrumaði honum í netið.

Staðan var svo orðin 2-0 tæpum stundarfjórðungi síðar er Møller skoraði sitt annað mark. Að þessu sinni fylgdi hún eftir skoti Lorenu Navarro Dominguez sem var bjargað á línu. Møller fullkomnaði svo þrennu sína með góðu skoti úr teignum eftir fyrirgjöf Robles frá hægri. 

Markið kom upp úr frábæru þríhyrningsspili heimakvenna á hægri vængnum. Staðan orðin 3-0 og þannig var hún í hálfleik.

Síðari hálfleikur byrjaði líkt og sá fyrri en Olga Garcia Carmona kom Real í 4-0 eftir að hreinsun Ástu Eir Árnadóttur fór í Møller og sú danska sendi Carmona í kjölfarið eina í gegnum vörn Blika.

Ásta Eir og Caroline Møller í leik kvöldsins.Denis Doyle/Getty Images

Þrátt fyrir að vera 4-0 yfir var varnarlína Blika mjög hátt upp á vellinum og mikið svæði milli línanna. Það nýtti Lorena Navarro sér en hún skoraði fimmta mark Real Madríd þegar mínúta lifði leiks, lokatölur 5-0 í spænsku höfuðborginni. 

Lorena Navarro skoraði fimmta mark Real Madríd í kvöld.Denis Doyle/Getty Images
Karitas Tómasdóttir í baráttunni við Nahikari García í kvöld.Denis Doyle/Getty Images

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.