Innlent

Dóms­­mála­ráðu­neytið telur mikil­­vægt að ráðast í heildar­endur­­skoðun á­­fengis­laga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dómsmálaráðherra telur þurfa að breyta löggjöfinni til að heimila netsölu.
Dómsmálaráðherra telur þurfa að breyta löggjöfinni til að heimila netsölu. Vísir/Vilhelm

Smásala áfengis er einungis heimil Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins, segir í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Félags atvinnurekenda um lögmæti netsölu á áfengi.

Í svarinu segir að færa megi rök fyrir því að lög hafi ekki þróast í takt við þá samfélagslegu þróun sem hafi orðið á undanförnum árum og eigi það einnig við um breytt mynstur verslunar, þá sérstaklega netverslun, innlenda sem erlenda.

Félag atvinnurekenda telur svörin ekki fullnægjandi og í tilkynningu á vef félagsins segir að ráðuneytið hafi verið beðið um að svara þremur spurningum:

  1. Er netverslun áfengisframleiðanda með staðfestu á Íslandi í samræmi við lög?
  2. Er netversun fyrirtækis með staðfestu í öðru EES-ríki, sem afhendir vörur til neytenda beint úr vöruhúsi á Íslandi, í samræmi við lög?
  3. Er netverslun fyrirtækis með staðfestu í ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins (t.d. Bretlandi) sem afhendir vörur til neytenda beint úr vöruhúsi á Íslandi, í samræmi við lög?

Auglýsingabann aðeins „orðin tóm“

„Á undanförnum árum hafa komið upp ýmis álitaefni sem hafa bent til þess að mikilvægt sé að ráðast í heildarendurskoðun á áfengislögum til að þau endurspegli breytta þróun á sviði verslunar og framleiðslu áfengis hér á landi,“ segir í svari ráðuneytisins.

Þrátt fyrir þetta sé skýrt að starfsemi sem snýr að innflutningi, heildsölu, smásölu eða framleiðslu áfengis í atvinnuskyni sé leyfisskyld hérlendis.

Þá segir að það hafi verið mat dómsmálaráðherra að gera þyrfti breytingar á lögum til að heimila innlenda netverslun með áfengi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.

Í tilkynningu FA segir að félagið hafi ítrekað hvatt til heildarendurskoðunar á áfengislöggjöfinni og þá hafi félagið lagt áherslu á að bann við áfengisauglýsingum verði afnumið, enda sé það ekki annað en „orðin tóm“.

Tilkynning FA og svar ráðuneytisins.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.