Innlent

Óljóst hversu lengi húsin sem standa eftir verða rýmd

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Níu hús voru rýmd á Seyðisfirði í síðustu viku vegna skriðuhættunnar og yfirgáfu þá nítján manns heimili sín. Rýmingu hefur nú verið aflétt af fjórum húsum. 
Níu hús voru rýmd á Seyðisfirði í síðustu viku vegna skriðuhættunnar og yfirgáfu þá nítján manns heimili sín. Rýmingu hefur nú verið aflétt af fjórum húsum.  Veðurstofan

Rýming húsa á Seyðisfirði sem hefur varað í rúma viku vegna skriðuhættu var aflétt að hluta til í gær en íbúar fjögurra húsa af níu fengu að snúa aftur á heimili sín. Íbúafundur fór fram á Seyðisfirði í gær þar sem íbúum var tilkynnt um málið en óljóst er hversu lengi húsin fimm sem eftir standa verða rýmd.

Íbúum sem var gert að rýma heimili sín í síðustu viku funduðu í gegnum fjarfundabúnað í gær með fulltrúum veðurstofunnar, almannavarna og Múlaþings eftir að ákveðið var að aflétta rýmingu að hluta til. 

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Austurlandi, segir íbúafundinn hafa gengið vel þar sem íbúar fengu meðal annars að koma sínum vangaveltum á framfæri.



„Það var ágætismæting þar og íbúum annars á Seyðisfirði boðið að mæta. Þetta voru bara góðar umræður og upplýsandi vona ég fyrir báða aðila, hvort heldur þeir sem þurftu að rýma þau áfram eða halda þeim rýmdum, og hinum sem að geta þá aftur farið í sín hús,“ segir Kristján.

„Eins auðvitað gott fyrir veðurstofu og almannavarnir að heyra svona viðhorf íbúa. Eins og ég segi ég held að þetta hafi verið upplýsandi fundur og góður fyrir alla,“ segir hann enn fremur.

Aðspurður um hvernig íbúar tóku í fréttirnar segir Kristján þá hafa verið rólega og yfirvegaða þar sem íbúar voru viðbúin hvoru tveggja, að þau myndu annað hvort fá að fara heim til sín eða ekki. Hættustig almannavarna er enn í gildi og er vel fylgst með hreyfingum á hryggnum við Búðará.

„Það er svona verið að bíða bara eftir því að sjá betur hvernig hann hagar sér og á hvaða leið hann er. Þetta verður svo bara metið daglega og niðurstaðan þá eftir því, en líklegt að það verði í það minnsta rýming í einhverja daga enn, að minnsta kosti,“ segir Kristján að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×